Reynsluboltar með netabáta

Betur fór en á horfðist með strandið á Fjordvik sem fór upp í grjótgarðinn í Helguvík. Eins og komið hefur fram þá tókst að draga skipið til Keflavíkur, framhaldið er að draga það til Hafnarfjarðar í flotkví og sjá hvað verður hægt að gera við það. Helguvík er reyndar þannig að það eru ansi mörg skip sem koma þangað ár hvert með olíu, sement og yfir vertíðina að taka þar mjöl og lýsi. Uppsjávarskipin okkar, sem eru nú ekki neitt rosalega mörg því þau eru ekki nema rúmlega 20 talsins, þau láta sjá sig af og til í Helguvík, þó aðalega um veturinn þegar loðna gengur hérna framhjá. Fyrir utan það sjást þau mjög sjaldan, það er helst að þau komi við og losi hratið, sigli síðan til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar og landi þar frystum afurðum.
 
Snúum okkur þá að því sem er að gerast í höfnunum hérna á Suðurnesjum. Þar ber það hæst mikil fjölgun báta sem eru komnir til Sandgerðis. Lengi vel var Bjössi skipstjóri á Andey GK einn að veiða á línu. Núna ber svo til að þeim hefur fjölgað mjög mikið bátunum og er t.d. Hulda GK og Daðey GK báðir komnir frá Skagaströnd. Einn algjörlega nýr bátur, Benni SU, er líka kominn. Hann hefur verið gerður út frá Austfjörðum síðan árið 2007.
 
Stutt er í næstu báta því að Guðbjörg GK og Óli á Stað GK eru komnir til Ólafsvíkur og hafa verið að landa þar núna í byrjun nóvember.
 
Ef við skoðum línubátana sem eru stærri enn 15 Bt, þá er Rán GK með 3,8 tn í 2 í Grindavík. Daðey GK 5,7 tonn í 2. Andey GK 14 tonní 5. Máni II ÁR 16,4 tonn í 4, báðir í Sandgerði. Hulda GK 25 tonn í 6, allt í Sandgerði nema ein löndun sem var á Skagaströnd. Óli á Stað GK 39 tonn í 6 á Skagaströnd og Ólafsvík og Guðbjörg GK 44 tonn í 5 á sömu höfnum.
 
Stærri bátarnir eru t.d. Hrafn GK með 139 tonn í 2. Valdimar GK 123 tonn í 2.  Sturla GK um 200 tonn og þar af 120 tonn í einni löndun.
 
Af minni bátunum þá er Dóri GK með 49 tn í 7 og Von GK 46 tn í 7 báðir á Neskaupstað. Dúddi Gísla GK 18 tn í 5 á Skagaströnd. Bergur Vigfús GK 3 tonn í einni löndun, en báturinn bilaði um daginn þegar hann var við veiðar þegar að beitningavélin bilaði. Addi Afi GK 8,8 tonn í 2 og þar af 5,3 tonn í einni löndun. Birta Dís GK 5 tonn í 2.
 
Frekar rólegt er yfir aflanum hjá netabátunum. Þó gekk Valþóri GK ansi vel því að báturinn landaði í Sandgerði 12 tonnum í 2 róðrum og var ufsi um 10 tonn af þeim afla. Guðjón Bragason er tekin við skipstjórinni á Valþóri GK en Guðjón, eða Gaui Braga eins og hann er kallaður, var lengi vel skipstjóri á Grímsnesi GK og hefur langa sögu að baki sem skipstjóri á netabáti frá Sandgerði. Vel yfir 30 ára saga sem Gaui hefur.  
 
Grímsnes GK er aftur á móti ennþá að eltast við ufsann fyrir austan og hefur landað í Þorlákshöfn 35 tonnum í 3 róðrum. Erling KE er kominn á veiðar og hefur verið að landa í Sandgerði og landað þar 26 tonnum í 5 róðrum. Hefur báturinn verið að leggja netin í kringum Eldey og líka nokkuð djúpt úti af Sandgerði.  Mest 14 tonn í róðri.
 
Af hinum bátunum sem hafa verið að leggja netin í Faxaflóanum þá er veiðin frekar dræm. Maron GK með 5,4 tonn í 3 og mest 2,6 tonn. Halldór afi GK með 2,5 tonn í 4.  
 
Nýr netabátur er svo að koma á veiðar, því að báturinn sem eitt sinn hét Daðey GK og var yfirbyggður línubátur með beitningavél heitir núna Bergvík GK. Sá bátur er í eigu fyrirtækisins GunGum ehf. en að því fyrirtæki standa tengdasynir Þorsteins Erlingsonar, sem er eigandi af Saltveri ehf., sem gerir út Erling KE.
 
GunGum ehf. á ekki bara Bergvík GK, því að þeir eiga líka Lóm KE, sem er gamli Örnin GK og Votaberg KE, sem hét áður Eiður ÓF frá Ólafsfirði. Allir þessir bátar voru á makrílveiðum í sumar og núna er semsé Bergvík GK að fara á netaveiðar. Skipstjórinn á bátnum er Hafþór Örn Þórðarson, sem var áður með Halldór afa GK og þar á undan Von GK. Hafþór hefur nokkuð mikla reynslu af netaveiðum eða í kringum 15 ár og hefur meðal annars leyst af á Grímsnesinu GK.  
 
Verður fróðlegt að sjá hvernig Bergvík GK muni ganga á netaveiðum. Nú þegar er búið að færa á bátinn 100 tonn af þorskvóta frá Saltveri sem kemur frá Erling KE.