Reyndi að stela sjónvarpi af hóteli
Karlmaður var staðinn að verki á dögunum þegar hann reyndi að stela sjónvarpi á hóteli í umdæmi Lögreglunnar á Suðurnesjum. Starfsmaður hótelsins kom að honum þar sem hann var búinn að taka sjónvarpið niður úr hillu í setustofu og draga það fram á gang sem liggur að neyðarútgangi. Þegar hann varð starfsmannsins var sleppti hann sjónvarpinu og hljóp út af hótelinu.
Hinn óboðni gestur lét ekki staðar numið því að í framhaldinu reyndi hann að fara inn í íbúð og bíla sem stóðu mannlausir. Lögregla hafði fljótlega upp á kauða. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem tekin var af honum skýrsla.