Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reyndi að fá dreng upp í bíl til sín
Miðvikudagur 25. maí 2005 kl. 17:55

Reyndi að fá dreng upp í bíl til sín

Karlmaður á rauðum pallbíl eða einhvers konar fólksbifreið hefur sést fyrir utan grunnskóla í Reykjanesbæ og hefur hann reynt að lokka börn upp í bifreið sína með sælgæti. Foreldrar barna í grunnskóla í Reykjanesbæ tilkynntu þetta lögreglu eftir að maður hafði reynt að lokka lítinn dreng upp í bíl sinn.

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta var dreng í 1. bekk boðið sælgæti fyrir að stíga upp í bifreið mannsins. Drengurinn var að bíða eftir því að faðir hans sótti hann. Drengurinn flýtti sér í burtu og fór aftur inn í skóla og faldi sig þar. Þar sýndi hann hárrétt viðbrögð.

Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni í Keflavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að lögreglan hafi reynt að kanna þetta mál og hafa þeir verið í upplýsingaleit hjá börnum. „Reynt hefur verið að ræða við krakka í skólunum en það hefur ekki beinst grunur að neinum ákveðnum aðila í þessu,“ sagði Jóhannes og bætti því við að lögreglan muni halda áfram að fylgjast með þessu.

Lögreglan í Keflavík vill beina því til foreldra að brýna fyrir börnum sínum að fara ekki upp í bíl með ókunnugum. Eins biður Lögreglan í Keflavík alla þá sem verða varir við eitthvað vafasamt að hafa samband strax.

„Við höfum hvatt okkar starfsfólk sem vinnur úti með börnunum að fylgjast með og við erum vel á verði,“ sagði Lára Guðmundsdóttir, skólastýra í Njarðvíkurskóla en mikil fræðsla hefur verið í skólanum um þessi mál. „Óeinkennisklæddur lögreglumaður var á vappi með börnunum þegar þau voru að fara heim í dag ásamt starfsfólki skólans,“ sagði Lára og bætti því við að starfsfólk Njarðvíkurskóla myndi fylgjast náið með þessu í framtíðinni.

Gunnar Jónsson, skólastjóri í Heiðarskóla, sagði í samtali við Víkurfréttir að kennarar hefðu rætt við nemendur í dag og brýnt hafi verið fyrir þeim að fara ekki upp í bíl með ókunnugum. „Við sendum einnig bréf til þeirra foreldra sem við höfum netföngin hjá og þar var beðið foreldra að ræða við börn sín um þessi mál,“ sagði Gunnar.

„Þetta er skelfileg tilhugsun að þetta viðgangist í ekki stærra bæjarfélagi en okkar en ég vona að sjálfsögðu að lögreglan gangi í málið hratt og örugglega,“ sagði Viktor Kjartansson, formaður foreldrafélags Heiðarskóla.

Ekki er svo langt síðan að níu ára gömul stúlka var numin á brott í Kópavogi og skilin eftir við afleggjarann að Skálafelli. Maðurinn sem stóð að því verki var um tvítugt og á rauðum fólksbíl. Ekkert bendir til þess að málin tengist að svo stöddu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024