Reyna að bjarga Kísilveri í Helguvík
Stefnt er að því að drög að breyttum orkusamningi við Íslenska kísilfélagið verði lögð fyrir stjórnarfund Landsvirkjunar á föstudag í því skyni að bjarga verkefninu, en lokafrestur, sem Landsvirkjun veitti bandarískum fjárfestum, rennur út í dag.
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld að áform um kísilver í Helguvík væru í uppnámi og að svo gæti farið að samningum yrði rift á næstu dögum og hætt við verkefnið. Eitt ár er liðið frá því samningar voru undirritaðir við hátíðlega athöfn í Keflavík að viðstöddum tveimur ráðherrum ríkisstjórnarinnar og áttu framkvæmdir að hefjast í fyrravor. Ekkert bólar hins vegar enn á framkvæmdum.
Íslenska kísilfélagið, sem er að stærstum hluta í eigu bandaríska félagsins Globe Speciality Metals, hefur ítrekað fengið fullgildingu orkusamningsins frestað, síðast til 15. febrúar. Landsvirkjun var búin að tilkynna ráðamönnum kísilfélagsins að frekari frestir yrðu ekki veittir og nú yrði að taka endanlega ákvörðun, af eða á, en Globe-menn svöruðu á móti að þeir treystu sér ekki til að hefjast handa nema orkusamningurinn yrði endurskoðaður vegna verðlækkunar á kísil og tafa á verkefninu.
Aðilar hafa að undanförnu reynt að leita lausnar enda málið í uppnámi þar sem fresturinn rennur út í dag. Aukinnar bjartsýni gætir nú um að aðilar séu að ná saman, og samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 er stefnt að því að drög að breyttum orkusamningi verði lögð fyrir stjórnarfund Landsvirkjunar næstkomandi föstudag. Jafnframt er gert ráð fyrir að fresturinn verði framlengdur um einn mánuð enn, til 15. mars, til að ganga endanlega frá nýjum samningum.
Þetta bendir til þess að ráðamenn Landsvirkjunar séu tilbúnir að koma til móts við óskir ráðamanna Globe um afslátt frá orkuverðinu til að kísilver geti orðið að veruleika á Suðurnesjum.
Frétt af vísir.is