Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 26. maí 2003 kl. 15:11

Reykræstu íbúð eftir kæruleysi með öskubakka

Í hádeginu á laugardag var tilkynnt um lausan eld í heimahúsi við Hafnargötu í Keflavík. Í ljós kom að losað hafði verið úr öskubakka í ruslafötu með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í fötunni. Einhverjar skemmdir urðu af reyk og sóti og varð að reykræsta íbúðina. Þetta og margt fleira í dagbók lögreglunnar.Föstudagurinn 23. maí 2003
Kl. 23:13 var tilkynnt til lögreglu að rúða hafi verið brotin í Íþróttavallarhúsinu í Keflavík. Þarna var að verki 17 ára piltur sem náðist strax. Hann var undir áhrifum áfengis.
Laugardagur 24. maí 2003
Kl. 00:55 var ökumaður fólksbifreiðar kærður fyrir að aka á 117 km hraða á Grindavíkurvegi þar sem leyfilegur hámarkshraði var 90 km.
Kl. 12:30 var tilkynnt um lausan eld í heimahúsi við Hafnargötu í Keflavík. Í ljós kom að losað hafði verið úr öskubakka í ruslafötu með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í fötunni. Einhverjar skemmdir urðu af reyk og sóti og varð að reykræsta íbúðina.
Kl. 13:41 var ökumaður fólksbifreiðar stöðvaður í Keflavík og er hann grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis.
Kl. 15:54 var ökumaður fólksbifreiðar í Keflavík kærður fyrir að aka með útrunnin ökuréttindi.
Kl. 22:19 var ökumaður fólksbifreiðar kærður fyrir að aka á 134 km hraða á Sandgerðisvegi þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.
Sunnudagur 25. maí 2003
Kl. 01:06 var ökumaður fólksbifreiðar mældur á 118 km hraða á Grindavíkurvegi þar sem hámarkshraði er 90 km. Ökumaðurinn er einnig grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis.
Kl. 01:32 var tilkynnt um stuld á brimbretti af palli bifreiðar, Ford Ranger, rauðum að lit, við Mávabraut í Keflavík. Brettið er af gerðinni Stewart og er hvítt með bláum og grænum röndum. Það var í renndum poka sem var skærrauður að lit. Brettið er ca. 2,3m að lengd og eru 3 uggar neðan á því aftanverðu. Áætlað verðmæti er kr. 45.000.- Þeir sem einhverjar upplýsingar geta gefið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í Keflavík.
Kl. 02:38 var lögreglan kvödd að Mamma Mía í Sandgerði vegna líkamsárásar. Þaðan voru tveir menn fluttir sárir á sjúkrahús. Annar hafði fengið glerbrot í auga en hinn var mikið skorinn í andliti. Málsatvik eru í rannsókn.
Kl. 02:40 var tilkynnt um að maður hafði brotið rúðu í verslun við Hafnargötu í Keflavík með hnefahöggi. Maðurinn var á bak og burt er lögreglan kom að en var handtekinn skömmu síðar inni á skemmtistað í Keflavík, ölvaður og æstur. Maðurinn gisti fangageymslu lögreglunnar fram eftir morgni.
Kl. 03:40 voru þrjár stúlkur grunaðar um ölvun við akstur sömu bifreiðarinnar í Sandgerði. Tvær þeirra voru ekki með aldur til að aka bifreið.
Kl. 04:32 var ökumaður fólksbifreiðar kærður fyrir að aka á 130 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Ökumaðurinn er einnig grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis.
Kl. 06:09 var tilkynnt um innbrot í Shell skálann í Sandgerði og að blóðugur maður væri staddur í næsta nágrenni við staðinn. Maðurinn, sem var ölvaður, var handtekinn.
Að auki framangreindra verkefna á liðinni næturvakt þ.e. frá kl. 19:00 til 07:00 var mjög mikið um "hávaðaútköll" í heimahús, "slagsmálaútköll" á skemmtistaði auk annars ónæðis.
Dagvaktin þ.e. frá kl. 07:00 til 19:00 var frekar róleg og bar ekkert fréttnæmt á góma.
Kl. 18:47 var tilkynnt um innför í ólæsta bifreið við Hringbraut í Keflavík og stolið úr henni öskubakka og ökuskírteini, þá hafði baksýnisspegill verið brotinn. Lögrm fundu ökuskírteinið og öskubakkann skammt frá bifreiðinni.
21:22 var tilkynnt til lögreglu að knattspyrnumaður hafi slasast er hann var að spila fótbolta á velli ofan við Iðavelli í Keflavík. Tveir leikmenn lentu í samstuði og fótbrotnaði annar þeirra og var hann fluttur með sjúkrabifeið á slysadeild í Reykjavík.
Um helgina voru 10 ökumenn kærðir fyrir að hafa ekki spennt öryggisbeltið við aksturinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024