Reykkafarar BS fá ný köfunartæki
Reykkafarar í slökkviliði Brunavarna Suðurnesja fengu langþráða sendingu í gær þegar þrjú vörubretti komu á slökkvistöðina við Hringbraut með ný reykköfunartæki fyrir slökkviliðið. Köfunartækin sem voru fyrir á slökkvistöðinni eru orðin 15 ára gömul.
Reykköfunartækin eru af fullkomnustu gerð frá Dräger. Um er að ræða þrettán köfunartæki, auk þess sem keyptir voru 50 nýir hjálmar fyrir slökkviliðsmenn.
Með nýju reykköfunartækjunum eru reykkafarar einnig í betra fjarskiptasambandi en köfunargríman er tengd við Tetra-fjarskipti sem tryggir betra samband og hreinna hljóð.
Eldri reykköfunartæki verða nýtt áfram í æfingaaðstöðu slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja í gömlu sorpeyðingarstöðinni við Hafnaveg.
Á myndinni er Jóhann Sævar Kristbergsson eldvarnaeftirlitsmaður og verkefnastjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja með nýju reykköfunartækin en með honum á myndinni er Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri BS.