Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjavík skal hún heita
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 16:39

Reykjavík skal hún heita

Boeing flugvél TUI flugfélagsins fær nafnið Reykjavík

Flugfélagið TUI Airways tók í dag í notkun nýja Boeing 737-8 flugvél með flugnúmerið TOM 4308 2322. Hún lenti á Keflavíkurflugvelli á ellefta tímanum í morgun eftir brottför frá Gatwick-flugvelli í London. Við hátíðlega athöfn á Keflavíkurflugvelli gaf Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, vélinni nafnið Reykjavík.

Um 50 gestir voru viðstaddir athöfnina, þar á meðal Grýla og synir hennar jólasveinarnir sem létu sig ekki vanta. Farþegum sem komu og fóru með flugvélinni var boðið upp á góðgæti og glaðning af þessu tilefni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er sannarlega heiður að aðili eins og TUI, sem við höfum verið í langvarandi samstarfi við, hafi valið að nefna eina af flugvélum sínum eftir höfuðborginni okkar. Og það sem meira er, þetta táknar ekki aðeins náið samband TUI og Íslands, heldur einnig það traust sem okkur er sýnt sem mikilvægum áfangastað,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli.

„Í dag höldum við áfram vegferð okkar að því markmiði að verða sparneytnasta flugfélaga Evrópu þegar við bjóðum aðra Boeing 737-8 flugvél velkomna í flotann hjá TUI Airways,“ sagði Sebastian Ebel, forstjóri TUI Group, sem var viðstaddur athöfnina á Keflavíkurflugvelli. „Reykjavík okkar er nú fulltrúi borgarinnar, eyjunnar og TUI Group – um alla Evrópu. Í morgun lentum við á Keflavíkurflugvelli með fullbókað flug – það er áhrifamikið að sjá að ferðamenn geta ekki beðið eftir því að ferðast norður í vetur til lands gífurlegra andstæðna og stórbrotins landslags. TUI er samstarfsaðili ferðamannastaða um alla Evrópu og við höfum skipulagt orlofsferðir til Íslands með eigin flugi í næstum átta ár. Í vetur eigum við von á yfir 10 þúsund gestum frá Bretlandi sem munu heimsækja land elds og íss.“

„Það er mér mikil ánægja að vera guðmóðir þessarar TUI Boeing 737-8 vélar sem nefnd er eftir fallegu borginni okkar, nyrstu höfuðborg heims,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar. „Reykjavík heldur áfram að veita innblástur og heilla ferðamenn frá öllum heimshornum. Við erum kannski smá, en við bætum það upp með takmarkalausri orku, óbilandi þrautseigju og sköpunarkrafti sem á sér engin takmörk. Þessi nýi fulltrúi okkar mun gera okkur enn vinsælli.“

Frá 17. desember 2023 til 28. febrúar 2024 flýgur TUI frá London Gatwick, Manchester og Bristol til Íslands og hefur aukið framboð sitt. Alls eru áætlaðar yfir 100 ferðir til og frá Íslandi til vetrarloka árið 2024.