Reykjanesvirkjun á áætlun
Framkvæmdir við Reykjanesvirkjun hafa gengið vel í vor og sumar og er nú farið að sjá mynd á stöðvarhúsinu sem gnæfir hátt yfir hraunbreiðunni.
Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir framkvæmdir hafa gengið að óskum eftir að vetrarkulda linnti. „Eftir að veturinn sleppti sínum heljartökum á svæðinu höfum við unnið upp allar tafir, en þetta var erfitt á tímabili. Nú lítur þetta vel út og við stefnum enn á að hefja rafmagnsframleiðslu þann 1. maí á næsta ári og lokafrágangi á að vera lokið um haustið sama ár.“
Hitaveitan mun á næstunni opna upplýsingamiðstöð á framkvæmdasvæðinu en nú er unnið að því að bæta aðkomu til og frá svæðinu til að henta fólksbílum betur m.a. með því að malbika. Í miðstöðinni verður hægt að nálgast ýmsan fróðleik um svæðið og framkvæmdirnar, en þar verður opið alla daga vikunnar.
Einnig hefur verið komið upp göngustígum um svæðið og útsýnispalli þar sem sjá má yfir framkvæmdirnar.
VF-myndir/Hilmar Bragi