Reykjanesfólkvangur: Landvörður allt árið
Nú þegar 35 ár eru liðin frá stofnun Reykjanesfólksvangs hafa aldrei fyrr staðið fyrir dyrum önnur eins nýtingaráform á þessu vinsæla útivistarsvæði, þ.e. í Krýsuvík, með virkjunum og línulögnum. Þetta kom fram í umræðum um stöðu fólksvangsins á fræðslukvöldi sem haldið var í Saltfisksetrinu á fimmtudagskvöldið.
Þar flutti Sigrún Helgadóttir, líf- og umhverfisfræðingur, fyrirlestur um skýrslu sem hún vann fyrir fjórum árum fyrir stjórn Reykjanesfólksvangs á öllum helstu þáttum fólksvangsins.
Þá var gengdarlaus utanvegaakstur á svæðinu ræddur og hvað hægt væri að gera til að koma í veg fyrir hann. Voru fundarmenn sammála um að eina leiðin til að draga úr honum væri að skilgreina sérstakt svæði fyrir torfæruhjól og fjórhjól þannig að menn hefðu aðstöðu til að stunda þetta sport.
Umgengni um fólksvanginn hefur oft á tíðum ekki verið til fyrirmyndar en sýnilegur árangur varð þó síðasta sumar þegar landvörður var ráðinn til starfa í fyrsta skipti. Hafði hann mikil afskipti af fólki vegna utanvegaaksturs, að sögn fulltrúa Grindavíkurbæjar í stjórn fólksvangsins. Fólk á torfæruhjólum hefur sótt mikið inn á svæðið og nefndi hann sem dæmi að 2. september 2007 taldi landvörðurinn 200 hjól á svæðinu.
Stjórn fólksvangsins hefur nú fengið aukið ráðstöfunarfé og verður því m.a. varið til að ráða landvörð á ársgrundvelli. Á borði hennar bíða fjölmörg verkefni, s.s. að fullklára tjaldsvæði í Krókamýri en vinna við það hófst síðasta sumar. Þá eru ýmis gönguleiðaverkefni í bígerð, verið er að laga upplýsingaskilti, fólksvangsvörðurnar verða lagaðar og ruslagámum komið í gott horf.
Mynd/elg: Frá hverasvæðinu í Seltúni í Krýsuvík.