Reykjanesfólkvangur á rauðum lista UST
Í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu.
Reykjanesfólkvangur er meðal svæða eru í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta til. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar.
Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Á tveggja ára fresti er svo gefinn út svokallaður „rauður listi“ sem byggður er á ástandsskýrslunni. Eitt af markmiðum rauða listans er að forgangsraða kröftum og fjármunum til verndunar. Svæðin á listanum flokkast annars vegar á rauðan lista, en þar eru þau svæði sem eru undir miklu álagi sem bregðast þarf við strax. Hins vegar eru á appelsínugulum lista þau svæði sem eru undir töluverðu álagi og fylgjast þarf vel með og bregðast við eftir atvikum.
Þróun listans frá 2010 hefur verið þannig að svæðum á rauða listanum hefur fækkað en svæðum á appelsínugula listanum hefur fjölgað. Svæði á rauðum lista voru 10 árið 2010 en eru fimm í ár. Er það fyrst og fremst vegna þess að verndaraðgerðir hafa borið árangur og svæði færst niður á appelsínugula listann.