Reykjanesfólkvangur á rauðum lista og svæði í hættu
Reykjanesfólkvangur er á rauðum lista Umhverfisstofnunar og er svæði í hættu. Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Á tveggja ára fresti er svo gefinn út svokallaður „rauði listinn – svæði í hættu“ sem byggður er á ástandsskýrslunni. Eitt af markmiðum rauða listans er að forgangsraða kröftum og fjármunum til verndunar, að auka meðvitund um ákveðna hættu og efla samstarf meðal umsjónaraðila, hagsmunaaðila og stofnana sem koma að fjármögnun, skipulagingu, vöktun og stjórnun svæða.
Friðlandið Fjallabak, Helgustaðanáma, Verndarsvæði Mývatns og Laxár, Geysir og Reykjanesfólkvangur verða áfram á rauða listanum að sinni. Þær aðgerðir sem hafa verið gerðar á svæðunum að undanförnu hafa verið mikilvægar en duga ekki til að þau fari af rauða listanum að þessu sinni.
Landvörslu þarf að bæta umtalsvert á öllum þessum svæðum til að auka vernd þeirra. Á árinu 2017 fékk Umhverfisstofnun úthlutað 103. m.kr. aukalega í landvörslu sem mun styrkja mjög umsjón með friðlýstum svæða á árinu. Lögð verður sérstök áhersla á að auka landvörslu á svæðum sem eru á rauðum og appelsínugulum lista eftir ástandsmat ársins 2016.
Um Reykjanesfólkvang úr lista Umhverfisstofnunar
STYRKLEIKAR
Jarðfræði svæðisins er merkileg á heimsvísu en þar eru eldstöðvar af ýmsum gerðum ásamt gömlum og nýjum hraunum. Mikið er af minjum um lífshætti fólks á fyrri tímum. Svæðið er mikilvægt útivistarsvæði. Geysileg fjölbreytni er í jarðmyndunum, landslagi og litum, óvenjuleg vötn, fjölbreytt hraun, grösugir balar og vellir og jarðhiti með tilheyrandi litskrúði einkenna svæðið. Innan fólkvangsins eru svæði sem gætu fallið undir skilgreiningu um víðerni. Svæði á borð við Reykjanesfólkvang, svo nærri miklu þéttbýli, eru mjög verðmæt. Sett hafa verið upp upplýsingaskilti á undanförnum árum. Landvörður starfar á sumrin á vegum stjórnar Reykjavíkurfólkvangs. Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar hafa unnið að margvíslegum verkefnum, m.a. við að fjarlægja rusl, í fólkvangnum í samvinnu við landvörð. Stjórn fólkvangsins kynnti stjórnaráætlun fyrir árin 2012-2022 í apríl 2012 og var unnið út frá henni árið 2013.
VEIKLEIKAR
Innan fólkvangsins er að finna hverasvæði og ummyndanir sem eru mjög viðkvæmar. Landið var víða vel gróið en hefur verið ofnýtt og er gróður nú víða mjög illa farinn vegna átroðnings, ofbeitar og landeyðingar. Jarðvegseyðing er töluverð innan fólkvangsins. Ýmsir áhugahópar hafa helgað sér svæðið m.a. til torfæruaksturs og er landið víða illa farið. Svæðið er nálægt stórum og fylgir því mikill ágangur. Áætlanir eru um rannsóknir og nýtingu jarðhita í samræmi við Rammaáætlun. Innan fólkvangsins eru u.þ.b. 23 námur, flestar ófrágengnar eða í notkun.
ÓGNIR
» Auknar álagsskemmdir af völdum umferðar almennings og landnotkunar af ýmsu tagi. Heimsóknum utan hefðbundins ferðamannatíma fer fjölgandi.
» Hellirinn Leiðarendi er undir töluverðu álagi vegna slæmrar umgengni.
» Utanvegaakstur.
» Borið hefur á því að verktakar og aðrir losi úrgang innan fólkvangsins.
» Mikið er um að menn æfi skotfimi innan fólkvangsins.
» Naðurtunga sem vex á svæðinu er talin í nokkurri hættu (LR) skv. válista NÍ. Er hún talsvert útbreidd við hveri norðan Trölladyngju.
TÆKIFÆRI
» Aðvörunarskilti á Krýsuvíkurbjarg, þarfnast endurnýjunar. » Bæta má aðgengi á mörgum stöðum t.d. á Krýsuvíkurbjargi, við Húshólma, Selatanga, Leiðarenda, Kleifarvatn og við Krýsuvíkurbæinn.
» Afmarka þarf ýmis bílastæði innan fólkvangsins til að koma í veg fyrir utanvegaakstur.
» Efla þarf fræðslu um utanvegaakstur. Aukið eftirlit hefur gefið góða raun.
» Halda þarf áfram vinnu við að fjarlægja óþarfar girðingar og fjarlægja rusl.
» Heilsárslandsvarsla er nauðsynleg. Landvörður hefur starfað á vegum stjórnar Reykjanesfólkvangs. Viðvera landvarðar hefur dregið úr akstri utan vega sem og öðrum ólöglegum athöfnum manna á svæðinu.
» Skoða þarf aðgerðir til verndurnar Leiðarenda og annarra hella á svæðinu.
» Efla þarf fræðslu og upplýsingagjöf um fólkvanginn og náttúru- og menningarminjar innan hans.
» Endurheimta þyrfti fyrra gróðurfar og styrkja þannig viðhald þeirra vistkerfa sem á svæðinu eru og stöðva jarðvegsrof. Uppræta þarf lúpínu.
» Uppgræðsla á Krýsuvíkurheiði.
» Deiliskipulag og framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Seltúni. Umhverfisstofnun metur sem svo að þótt ýmsar aðgerðir hafi farið fram innan svæðisins á undanförnum árum sé enn langt í land. Stofnuninn telur því að svæðið verði að vera áfram á Rauðum lista yfir svæði í hættu.