Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Reykjanesbraut og fleiri leiðir lokaðar á Suðurnesjum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 19. desember 2022 kl. 09:19

Reykjanesbraut og fleiri leiðir lokaðar á Suðurnesjum

Víða er ófært á Suðurnesjum en stofnbrautir hafa verið ruddar en vegna skafrennings og eru nokkrar akleiðir lokaðar að því er kemur fram á Facebooksíðu Lögreglunnar á Suðurnesjum. Á mánudagsmorgni þegar þetta er skrifað er Reykjanesbrautin lokuð, Grindavíkurvegur, Sandgerðisvegur og Garðskagavegur eru líka allir lokaðir.

„Færðin á svæðinu er alls ekki góð og hafa einstaklingar á illa búnum bifreiðum fest sig á flestum stofnbrautum svæðisins. þetta er sama sagan sem er sögð ítrekað - þessar bifreiðar valda í kjölfarið miklum vandræðum. Vinsamlegast ekki leggja af stað á illa búnum bifreiðum. Jafnvel snjóruðningstæki eru að lenda í vandræðum!,“ segir í pistli lögreglunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skólahald fellur víða niður, m.a. í einhverjum skólum í Reykjanesbæ og í Suðurnesjabæ. 

Óveðrið og ófærðin hefur líka áhrif á millilandaflug og öllu flugi í morgun nema einu var aflýst.

Þessi tilkynning kom frá Lögreglunni kl. 10:

„Þungfært er víða á Suðurnesjum og fólk beðið að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Töluverður fjöldi ökutækja er fastur í ófærð víða um Suðurnes og er björgunarsveitarfólk að vinna á vettvangi við að aðstoða ökumenn. Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum eru að störfum vegna óveðursins, en fjöldi verkefna er slíkur að ekki hefst undan.“

Mikil vandræði hafa verið á Grindavíkurvegi síðustu daga vegna ófærðar. Hann er lokaður á mánudagsmorgni sem og fleiri fjölfarnir vegir eins og fram kemur í fréttinni.