Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbraut: Millikaflar fyrir lögreglu
Fimmtudagur 22. júlí 2004 kl. 17:24

Reykjanesbraut: Millikaflar fyrir lögreglu

Nú styttist í að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar verði opnuð almenningi og er von til að þær betrumbætur verði til þess að auka öryggi vegfarenda.

Margir hafa hins vegar velt vöngum yfir því hvernig lögreglan færi að því að hafa hendur í hári ökuníðinga sem koma úr gagnstæðri átt. Bilið milli akbrauta er ófært venjulegum lögreglubílum og þyrftu þeir að keyra um langa leið til að komast á milli með skikkanlegum hætti.

Víkurfréttir höfðu samband við Jónas Snæbjörnsson, umdæmisstjóra hjá Vegagerðinni sem sagði að hugsað hafi verið fyrir slíku.

„Það verða kaflar með 2-3 km millibili þar sem lögreglan getur snúið við. Eins er þá hægt að beina umferð á milli akbrauta ef þarf að loka annarri vegna slyss eða einhvers þess háttar. Ekki er gert ráð fyrir að almenningur notist við leiðirnar, en þær verða lokaðar með keðju eða álíka eins og hefur verið gert sums staðar í Reykjavík.“

Jónas bætir því við að þessir kaflar verði tilbúnir fyrir opnunina þannig að ljóst er að lögbrjótar munu ekki eiga auðvelt með að komast undan.

VF-mynd/Atli Már Gylfason

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024