Reykjanesbraut: Framkvæmdir ganga vel
Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar ganga vel og segir í fréttabréfi Jarðvéla, sem sér um framkvæmdirnar, að menn stefni ótrauðir á að skila verkinu á undan áætlun. Samkvæmt verksamningi við vegagerðina eru áætluð verklok á þessum 12 km kafla 1. júlí 2008.
Í fréttabréfinu er farið yfir stöðu mála á þeim köflum sem verið er að vinna:
Strandarheiði-Vogar
Verið er að gera kaflann frá Strandarheiði að Vogum kláran undir malbik auk þess sem unið er við niðurföll og snyrtingar.
Gatnamót Vogar
Sprengideildin er að störfum sunnan við afleggjarann að Vogum en norðanmegin er efnisvinnsla í fullum gangi.
Vogar-Grindavík
Unnið er við að hreinsa upp mold og grófjafna fláa meðfram vegstæði, auk þess sem unnið er við fyllingar í vegstæði.
Gatnamót Grindavík
Efnisvinnsla er í fullum gangi norðanmegin Reykjanesbrautar. Eykt ehf. Vinnur að gerð brúar sunnanmegin og miðar þeirri vinnu vel áfram.
Brú Stapahverfi
Jarðvinna er hafin við mislæg gatnamót sem tengja Stapahverfi í Reykjanesbæ við fyrirhugað svæði Motopark, en verkið er aukaverk við núverandi verksamning.
Gatnamót Njarðvík
Uppgröftur er á fullu norðanmegin ásamt því að Eykt ehf, vinnur að brúarsmíði.
VF-myndir/Þorgils: Frá framkvæmdum við Reykjanesbraut í morgun