Reykjanesbær vill hætta samstarfi en skoða sameiningu
-eining í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að slíta samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum
Bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ eru allir sammála um að slíta samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum í núverandi mynd. „Ég legg til að við slítum samstarfi þar sem það á við. Við getum ekki haldið þessu áfram svona,“ sagði Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og oddviti Samfylkingar á bæjarstjórnarfundi í vikunni.
Samstarf sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum (SSS) verður fjörutíu ára á næsta ári. Fulltrúar Reykjanesbæjar greindu frá því á ársfundi SSS fyrr í haust að nú væri komið að tímamótum í samstarfinu. Í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar þyrfti bæjarfélagið að gera það sem væri hagstæðast fyrir það en ekki heildina í samstarfinu. Nokkur verkefni hafa verið rekin með halla og þó svo Reykjanesbær sé með nærri 70% stærð í samstarfinu miðað við íbúafjölda hefur hann eingöngu verið með einn fulltrúa og eitt atkvæði í stjórn á móti hinum sveitarfélögunum. Nýlega óskaði Reykjanesbær eftir því að fá meira vægi innan stjórnarinnar og lagði til að fjölga um tvö fulltrúa sem hann fengi en sú tillaga var felld í stjórn SSS. Öll hin fjögur sveitarfélögin voru á móti því.
„Samstarf er gott og hefur oft gengið vel en lýðræðishallinn hefur ekki verið til góðs. Samstarfið er ómarkvisst og fjárfrekt, lítil ábyrgð og fjármálastýringin óljós,“ sagði Friðjón.
Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í vikunni var eitt umræðuefna samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum að ósk Kristins Jakobssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokks. Flestir bæjarfulltrúar tóku til máls og nokkrir fóru ítarlega yfir kosti og galla samstarfsins. „Samstarfið er ekki að skila okkur neinum ávinningi. Þetta er mikill lýðræðishalli, okkur í óhag. Samstarfið í Dvalarheimilum aldraðra á Suðurnesjum er til dæmis sorglegt. Við þurfum að finna einhverja leið til að fara út úr þeim verkefnum þar sem við teljum okkur geta gert betur sjálf,“ sagði Gunnar Þórarinsson, oddviti Frjáls afls og vitnaði þar m.a. til málefna Garðvangs, fyrrverandi hjúkrunarheimilis sem var í Garði. Til stendur að auglýsa húsakynnin en heimamenn áréttuðu um daginn að samkvæmt skipulagi á opinber bygging að vera þar sem gamla hjúkrunarheimilið er. Það gerir því erfiðara fyrir í sölu á húsnæðinu sé áhugi t.d. fyrir því að breyta því í annan rekstur. Garðmenn hafa sagt að gera eigi allt til þess að endurvekja rekstur hjúkrunarheimilisins en fulltrúar Reykjanesbæjar og fleiri segja að einingin sé alltof lítil og rekstur hennar vonlaus. „Við eigum ekki að sætta okkur við það að Garður haldi okkur í gíslingu út af Garðvangi. Það er ekki samstarf. Nú er komið að ögurstundu í samstarfinu og við þurfum að taka skrefið mjög fljótlega,“ sagði Friðjón.
Í ræðum bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar kom fram að fagmennska væri döpur og oft væri verið að setja verkefni t.d. á skrifstofu sambandsins á meðan það væri hagstæðara að gera það annars staðar. Árni Sigfússon og Kristinn Jakobsson sögðu að réttast væri að fara í sameiningarumræðu. Sameinuð í einu sveitarfélagi yrði til sterkara sveitarfélag og undir þetta tóku fleiri bæjarfulltrúar. Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar væru mörg atvinnutækifæri og mörg önnur tækifæri í farvatninu sem lægi betur fyrir eitt sveitarfélag að taka á. Alla vega ætti að vera dauðfæri fyrir Sandgerði og Garð að sameinast Reykjanesbæ. Á aðalfundi SSS í haust var hins vegar enginn sameiningartónn í Sandgerðingum og Garðmönnum en þeir hafa þó nýlega sagt að sameining Garðs og Sandgerðis mætti vel skoða.