Reykjanesbær vill eignast Hafnargötu 38
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hyggjast ráðast í kaup á húseigninni Hafnargötu 38 þar sem veitingastaðurinn Paddy´s er til húsa. Samþykkt hefur verið að fela Þróunarsjóði Reykjanesbæjar að kaupa húsnæðið og bæjarritara að ganga frá kaupsamningi og leigusamningi.
Kaup á þessu húsi hafa oft áður komið til tals hjá bæjaryfirvöldum en það er ekki fyrr en nú sem samningagrundvöllur hefur skapast. Óskað var eftir hlutlausu mati og reyndist það vera samhljóða þeirri verðhugmynd sem núverandi eigandi hússins hafði. Samhliða kaupunum verður gerður leigusamningur við núverandi eiganda til nokkurra ára þannig að hann þurfi ekki að fara út með sinn rekstur strax.
„Sveitarfélagið verður þar með eigandi að húsinu og að leigutíma loknum geta menn tekið ákvörðun í framhaldinu um það hvort þeir vilji flytja húsið eða rífa það og breyta þá götumyndinni,“ sagði Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær.
Umrætt hús hefur þótt standa helst til of langt fram í götuna og hafa sumir rætt um að flytja það aftar á lóðina og varðveita. Það var byggt árið 1896 og hefur gegnt margvíslegu hlutverki í áranna rás. Timbrið í því kom m.a. úr hinu fræga seglskipi Jamestown sem strandaði skammt undan Kotvogi árið 1881 en það var fullhlaðið kjörviði af ýmsum tegundum.