Reykjanesbær: Verja fimm stoðir í þjónustu bæjarfélagsins
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2009 gerir ekki ráð fyrir rekstrarafgangi á árinu. Áætlunin var lögð fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í vikunni. Halli samstæðu verður um 250 m.kr. Eignir pr. íbúa eru áætlaðar 925 þús.kr. og skuldir pr. íbúa 554 þús.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 40 m.kr. fyrir bæjarsjóð og 194 m.kr. fyrir samstæðu. Áætlaðar heildartekjur bæjarsjóðs eru 7.324 m.kr og tekjur samstæðu eru áætlaðar 8.095 m.kr.
Engin hækkun verður á álagningarhlutfalli útsvars sem er nú 12,70% né fasteignagjalda en gjald vegna sorphirðu og sorpeyðingu hækkaði 1. október sl. hjá Kölku. Engin hækkun verður að svo stöddu á grunnþjónustu bæjarins, en gjöld vegna Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hækka. Afsláttur á ýmsum gjöldum verður óbreyttur. Umönnunargreiðslur lækka og dregið verður úr niðurgreiðslu bæjarins til frístundaskólans þannig að mánaðargjöldin hækka, en bærinn greiðir áfram 30% af kostnaði frístundaskólans.
Í kjölfar banka- og efnahagskreppu er augljóst að tekjur sveitarfélaga munu lækka verulega. Reykjanesbær fer ekki varhluta af þessu en stendur þó vel að vígi í samanburði við mörg sveitarfélög með sterka eiginfjárstöðu.
Bæjarstjóri fylgdi áætluninni úr hlaði og sagði hana byggja á að verja fimm stoðir í þjónustu bæjarfélagsins: Að verja grunnskólana, leikskólana, félagsþjónustu, starfsfólk í þjónustu bæjarins þannig að engar hópuppsagnir verði á starfsfólki og verja mannaflsfrekar framkvæmdir.
Til að svara hinum mikla samdrætti í tekjum var nauðsynlegt að endurskoða áætlanir um útgjöld og draga saman á ýmsum sviðum. Samtals hefur niðurskurður útgjalda verið 560 m kr eða um 10% frá fyrstu tölum.
Framlög til fræðslumála, grunnskóla og leikskóla, auk félagslegra verkefna hækka þó á milli ára, en lækkun er á framlögum til annarra málaflokka.
Til að mæta auknum kostnaði og minni tekjum þarf að gera tímabundnar breytingar á ýmsum þjónustuþáttum, sem gætu haft áhrif á takmarkaða hópa, s.s. í frístundaskóla og tónlistarskóla.
Ekki er gert ráð fyrir neinum hópuppsögnum starfsfólks en nauðsynlegt er þó að spara í launakostnaði. Nú er verið að fara yfir leiðir í þeim efnum, en sem kunnugt er hefur atvinnulífið brugðið á það ráð að lækka laun og segja upp fólki. Þar sem bæjaryfirvöld reyna að útiloka seinni liðinn er nauðsynlegt að skoða með hvaða hætti einhverjar launaskerðingar geti átt sér stað, án þess að það komi niður á lægra launuðum hópum. Að því er nú unnið í samráði við stjórnendur.