Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær tryggir hjá TM
Mánudagur 2. maí 2005 kl. 17:28

Reykjanesbær tryggir hjá TM

Forsvarsmenn Reykjanesbæjar og Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) hafa undirritað samkomulag til 6 ára um að TM veiti Reykjanesbæ víðtæka vátryggingarvernd sem sniðin er að þörfum bæjarfélagsins. Reykjaneshöfn er einnig aðili að samkomulaginu.

Þeir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Óskar Magnússon, forstjóri TM, undirrituðu samkomulagið sem þeir handsöluðu við bæjarhlið Reykjanesbæjar í dag.

Árni Sigfússon segir að með útboði á vátryggingum bæjarins og Reykjaneshafnar og samningnum við TM náist fram verulegur sparnaður. Samhliða því hafi farið fram endurmat á vátryggingaþörfinni sem hafi verið tímabær.

Óskar Magnússon fagnar því að Reykjanesbær hafi ákveðið að ganga til samninga við TM. Í því sé fólgin viðurkenning á því að TM bjóði góða þjónustu á samkeppnishæfum kjörum. Auk þess muni félagið leitast við að eiga samstarf við sveitarfélagið í forvarnar- og fræðslumálum.

Samningurinn er gerður að undangengnu útboði þar sem TM reyndist lægstbjóðandi en Sjóvá og VÍS buðu einnig í vátryggingar Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur fjallað um málið og samþykkti að gengið yrði til samninga við TM.

VF-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024