Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær tekur SAMskjáinn í notkun
Þriðjudagur 23. mars 2004 kl. 14:56

Reykjanesbær tekur SAMskjáinn í notkun

Í liðlega tvö ár hefur hugbúnaðarhúsið cTarget á Íslandi ehf. unnið í samvinnu við Reykjanesbæ og Samband íslenskra sveitarfélaga að þróun hugbúnaðarlausna fyrir sveitarfélög. Afraksturinn af þessari samvinnu nefnist SAMskjár. Lausnin hefur SAMþættan tilgang sem felur í sér margþættar nýjungar sem ekki eru í boði annars staðar.

Helstu nýjungarnar felast í því að sveitarstjórnarmenn geta nú unnið samhliða í þessu upplýsingakerfi á vefnum þótt þeir séu ekki á sama stað.  Jafnframt geta þeir séð hvorir aðra og talað saman. Allt það sem annar gerir sér hinn á skjánum hjá sér. Til viðbótar felur hugbúnaðurinn í sér nýjung sem ekki er fyrir hendi í venjulegu vefumhverfi. Hún felst í því að farið er beina leið (lárétt) á milli sveitarfélaga innan sama málaflokks á vefnum með möguleikum á beinu mynd- og hljóðsambandi við aðra notendur SAMskjásins gegnum fjarfundabúnað um Netið. 

SAMskjárinn samanstendur af þremur aðskildum hugbúnaðarlausnum sem allar geta þó unnið saman. Lausnirnar þrjár nefnast: SAM Alþingi sem einfaldar vafrið um vefsvæði stjórnarráðsins, SAM Sveitarfélög sem inniheldur heimasíður allra sveitarfélaga í landinu og flokkar þær eftir markvissu og einföldu kerfi og SAM Heimabyggð sem er sérsniðin lausn fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig. Stjórnendur sveitarfélaga þurfa oft að bera sig saman við stjórnendur annarra sveitarfélaga til að samhæfa ákvarðanatöku. Þessi samanburður hefur síðustu árin að mestu fram í gegnum Netið og getur verið tímafrekur því heimasíður sveitarfélaga eru oft flóknar og ólíkar að uppbyggingu. SAMskjárinn einfaldar þessa vinnu verulega og sveitarstjórnarmaður sem vill bera saman ákveðna þætti í sveitarfélaginu við önnur sambærileg sveitarfélög þarf því ekki að eyða löngum tíma í að vafra um Netið heldur flettir innan sama málaflokks á augabragði frá einu sveitarfélagi til annars með SAMskjánum.
Samvinna stjórnenda í sveitarfélögum er mikilvæg en í mörgum tilfellum kostar hún ferðir milli staða, milli skrifstofa ólíkra sviða sem oft eru staðsettar á víð og dreif um bæjarfélagið. SAMskjárinn hefur innbyggt video-/hljóðSAMband um Netið sem notendur lausnarinnar geta notað til að hafa samband sín á milli. Símareikningurinn hækkar því ekki þótt SAMskjárinn sé notaður til ítarlegra skoðanaskipta. Hægt er að setja lausnina upp í fundarherbergi sveitarfélaganna og nota fjarfundabúnaðinn til að beina t.d. spurningum til stjórnenda sem ekki hafa verið boðaðir á fundinn eða eru annars staðar í húsinu eða í bænum. Jafnvel getur viðkomandi verið staddur utan bæjarfélagsins, en svo fremi sem hann er tengdur við Netið getur hann tekið virkan þátt í fundinum.

Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir þessa íslensku hugbúnaðarlausn fyrir stjórnendur í opinberum rekstri ákaflega spennandi. "Allar góðar hugmyndir sem hafa það markmið að auka skilvirkni við stjórnun sveitarfélaga eru vel þegnar," segir Árni. "Upplýsingatæknin hefur alla burði til þess að auka hagræði og spara tíma í opinberri stjórnsýslu og mér sýnist SAMskjárinn vera kærkominn búnaður með þessa kosti. Af þeim ástæðum höfum við í Reykjanesbæ stutt þessa þróunarvinnu og fögnum því tækifæri að vera fyrsta sveitarfélagið sem fær þetta öfluga verkfæri í hendur," segir hann.
Einkahlutafélagið SAM ehf. sér um áframhaldandi þróun hugbúnaðarlausnanna og sinnir markaðssetningu en félagið var stofnað að þróunarvinnunni lokinni.

Sjá:  www.samehf.is

Myndin: Lárus Rúnar Ástvaldsson, framkvæmdastjóri SAM ehf. og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar við tölvuskjáinn. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024