Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær tekur í gagnið „Minn bær á netinu“
Þriðjudagur 9. ágúst 2005 kl. 20:33

Reykjanesbær tekur í gagnið „Minn bær á netinu“

Reykjanesbær innleiðir um þessar mundir „Minn bæ á netinu,“ sem er byltingarkennd hugbúnaðarlausn fyrir sveitarfélög sem vilja nýta upplýsingatækni í samskiptum við íbúa. Reykjanesbær er annað sveitarfélagið á þessu ári sem innleiðir „Minn bæ á netinu,“ en Hugvit og Garðabær áttu samstarf um þróun lausnarinnar.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, og Ólafur Daðason, forstjóri, Hugvits hf. undirrituðu í dag samning um innleiðingu kerfisins að viðstöddum Gordon McKenzie yfirmanni stjórnsýslulausna Microsoft í Evrópu  og Per Bendix, einnig frá stjórnsýslusviði Microsoft.

Með „mínum bæ á netinu“ sem kemur til með að vera kallað Mitt Reykjanes, fær hver íbúi sitt eigið aðgangsstýrt vefsvæði þar sem honum er gefinn kostur á að eiga samskipti við stjórnsýslu sveitarfélagsins. Hver íbúi getur skráð sig inn á vefinn og um leið merkt við þá málaflokka sem hann hefur sérstakan áhuga á.  Íbúinn fær í framhaldinu lykilorð sem hann notar til að nálgast sína síðu á vef Reykjanesbæjar.

Þjónustan sem hægt er að nálgast í gegnum kerfið er skipt niður í þrjú megin svið að því er kemur fram í fréttatilkynningu Hugvits. Í fyrsta lagi getur íbúinn fengið ýmsar persónubundnar upplýsingar svo sem um stöðu fasteignagjalda og leikskólagjalda. Auk þess getur hann tengst Mentor upplýsingakerfinu og fengið upplýsingar um börn á grunnskólaaldri. Einnig fær hann fréttatengt efni samkvæmt því áhugasviði sem hann skilgreinir við innskráningu.

Í öðru lagi verður mögulegt að fá aðgang að öllum eyðublöðum Reykjanesbæjar. Íbúanum gefst því kostur á að senda rafrænar umsóknir, fyrirspurnir og formleg erindi til bæjarins. Umsóknirnar, fyrirspurnirnar og erindin berast í GoPro Professional málastjórnunarkerfið, sem Reykjanesbær er með í notkun fyrir og ábyrgur starfsmaður fær tilkynningu um nýtt mál. Svör frá Reykjanesbæ berast síðan til baka á svæði íbúans.

Að lokum er megin markmið verkefnisins að efla og styrkja lýðræðislega umræðu og gefa íbúunum möguleika að skiptast á skoðunum um málefni bæjarins á grundvelli sinna skilgreindu áhugasviða, óháð stað og stund. Gegnum íbúavefinn gefst stjórnvöldum einnig kostur á að gera kannanir meðal íbúa um viðhorf til ýmissa málefna og málaflokka og geta þannig í kjölfarið nýtt þær upplýsingar til stefnumótunar og ákvarðanatöku. Auk þess er hægt að hafa samráð við íbúa vegna framkvæmda á vegum sveitarfélagsins. Þannig getur skapast nýr vettvangur fyrir virka þátttöku og samráð við íbúa og möguleikar aukast á meiri samstöðu um ákvarðanir.

Mitt Reykjanes stuðlar almennt að því að sveitarfélög geti miðlað betri og persónubundnari upplýsingum, veitt skilvirkari þjónustu og opnar um leið nýja möguleika á íbúalýðræði.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024