Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Reykjanesbær skiptir um kennitölu og lækkar skuldir um 70%
Miðvikudagur 1. apríl 2015 kl. 15:05

Reykjanesbær skiptir um kennitölu og lækkar skuldir um 70%

Reykjanesbær hefur skipt um kennitölu. Aðgerðin er möguleg vegna glufu í sveitarstjórnarlögum. Bæjarfélagið verður því framvegis rekið sem byggðarsamlag en ekki hefðbundið bæjarfélag.

Sérfræðingar frá endurskoðunarskrifstofum hafa undanfarna mánuði unnið með bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ í lausn á skuldavanda sveitarfélagsins. Eins og kunnugt er af fréttum skuldar Reykjanesbær yfir 40 milljarða króna. Þegar nýr meirihluti tók við stjórnartaumum í sveitarfélaginu eftir kosningar síðasta vor var strax farið í vinnu við að leysa vanda Reykjanesbæjar. Unnið hefur verið eftir áætlun sem kallast Sóknin og þar hefur verið ráðist í nokkrar sársaukafullar aðgerðir til að rétta við hag bæjarins.

Public deli
Public deli

Í allri þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin kom í ljós að glufa er í sveitarstjórnarlögum sem í raun heimilar sveitarfélagi á skipta um kennitölu. Kennitala Reykjanesbæjar er liðlega 20 ára gömul en hún verður í dag færð á sérstakan bókhaldslykil.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að þetta þýði þó ekki að sveitarfélagið sé orðið skuldlaust. Hins vegar lækka skuldbindingar Reykjanesbæjar um 70% við þessa aðgerð. Munar þar mestu um skuldir hafnarinnar.

Þessi breyting, að skipta um kennitölu og reka bæjarsjóð sem byggðarsamlag, þýðir að ekki þarf að hækka álögur eins og útsvar á bæjarbúa. Reyndar geta útsvarsgreiðendur í Reykjanesbæ nú sótt um lágmarksútsvar með því að framvísa rafrænum skilríkjum. Það hefur verið mögulegt alla þessa viku, eins og greint var frá á vf.is á mánudaginn. Umsóknir um útsvarslækkun þurfa hins vegar að hafa borist fyrir páska. Í dag er því lokadagur fyrir útsvarslækkun. Fólk þarf að mæta á bæjarskrifstofurnar við Tjarnargötu með rafrænu skilríkin og sækja um lækkunina. Vegna páska er opið í þjónustuveri bæjarins til kl. 21:00 í kvöld.