Reykjanesbær: Skatttekjur lægstar á hvern íbúa
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar segja skatttekjur á hvern íbúa lægstar í Reykjanesbæ af öllum sveitarfélögum á landinu og vitna í nýútkomna árbók sveitarfélga í því sambandi. Þetta kemur fram í bókun bæjarfulltrúa D-listans á síðasta bæjarstjórnarfundi. Í henni segir að fjármagnskostnaður sveitarfélagsins vegna framkvæmda í Helguvík nemi milljarði króna en enginn stuðningur hafi komið frá hinu opinbera.
Bókun sjálfstæðismanna er annar á þessa leið:
„Samkvæmt árbók sveitarfélaga um rekstur sveitarfélaga frá árinu 2008 eru skatttekjur á hvern íbúa lægstar í Reykjanesbæ af öllum sveitarfélögum á landinu. Barátta bæjaryfirvalda til að skapa betur launuð og örugg störf stendur enn yfir og engin uppgjöf er í sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ þrátt fyrir ýmsar hindranir sem settar eru á veginn. Fjölmörg verkefni eru tilbúin til framkvæmda eins og bæjarbúar og landsmenn þekkja. Það er forsenda fyrir betri launum íbúa og hærri skatttekjum sveitarfélagsins.
Í árbókinni kemur jafnframt fram að fjöldi starfsmanna Reykjanesbæjar sem hlutfall af fjölda bæjarbúa er næst lægstur af tíu stærstu sveitarfélögum landsins. Þrátt fyrir það sýna kannanir að þjónusta er metin með því besta sem býðst á landinu. Þá kemur fram að kostnaður við hina ýmsu þjónustuliði sveitarfélagsins er mjög hóflegur í samanburði við önnur sveitarfélög. Því er einsýnt að það er tekjuhlið sveitarfélagsins sem þarf fyrst og fremst að styrkja.
Enn hefur enginn stuðningur hins opinbera komið til uppbyggingar framkvæmdanna sem nú standa yfir í Helguvík en vegna þeirra var fjármagnskostnaður á síðasta ári um einn milljarður króna. Þá tók bærinn á sig rúmlega 4 milljarða kr. tap vegna Hitaveitu Suðurnesja á síðasta ári. Af þessum sökum varð verulegur hallarekstur af rekstri bæjarfélagsins á síðasta ári.
Um leið og hjól atvinnulífsins fá að snúast með hinum nýju atvinnutækifærum er ljóst að staða Reykjanesbæjar á meðal sveitarfélaga verður með bjartasta móti.“