Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær og Vogar fá viðurkenningu SíS
Föstudagur 1. apríl 2005 kl. 16:27

Reykjanesbær og Vogar fá viðurkenningu SíS

Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur hlutu í dag viðurkenningu frá Sambandi íslenskra Sveitarfélaga vegna nýjunga í stjórnsýslu.

Viðurkenningar fyrir framsækin sveitarfélög voru veitt til sex sveitarfélaga í þremur stærðarflokkum á ráðstefnu um nýjungar í stjórnun sveitarfélaga sem nú stendur yfir á Hótel Loftleiðum. Þau sveitarfélög sem hlutu viðurkenningu voru Akureyrarkaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður, Blönduósbær, Reykjanesbær, Vatnsleysustrandarhreppur og Garðabær.
Markmið viðurkenninganna er að hvetja íslenska sveitarstjórnarmenn til að ná betri árangri með nýjum stjórnunaraðferðum og kynna þannig  stöðu sveitarfélaga hvað varðar innleiðingu á nýmælum í stjórnun og hvaða sveitarfélög skara fram úr.

Viðurkenningarnar voru veittar í framhaldi könnunar sem gerð var meðal sveitarfélaga og voru upplýsingarnar notaðar til þess að velja framsækin sveitarfélög og veita þeim viðurkenningar öðrum til hvatningar.

Veittar voru viðurkenningar fyrir nýjungar í stjórnun, notkun upplýsingatækni og í starfsmannamálum.

Reykjanesbær hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sem kallað hefur verið Bertelsmanns prófið og er unnið í samvinnu við fimm vinabæjarsveitarfélög sem starfa á sambærilegum vettvangi. Vatnsleysustrandarhreppur hlaut viðurkenningu fyrir árangursríka innleiðingu á nýjum árangursstjórnunaraðferðum.
Markmið verkefnisins er að bæta stjórnsýsluna og auka gæði þjónustu við íbúa með því að miðla reynslu og læra þannig af hvort öðru. Sveitarfélögin taka þátt í árlegum prófunum þar sem árangur er mældur með Balance Scorecard.

Mynd: Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri Akureyrarkaupstaðar, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar, Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri Blönduósbæjar, Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Garðabæjar og Jóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri í Vatnsleysustrandarhreppi með viðurkenningar sínar ásamt þeim Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, sviðsstjóra Alþjóða- og þróunarsviðs sambandsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024