Reykjanesbær og Sandgerði ekki lengur til skoðunar eftirlitsnefndar
Formaður Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga segir að ekki þyki ástæða til að hafa hafa Reykjanesbæ og Sandgerði til frekari skoðunar. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í gær.
Í viðtali við Ólaf Nilsson, formann Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, kom fram að af þeim 10 sveitarfélögum sem Eftirlitsnefndin tók til skoðunar, þyki ekki ástæða til að hafa Reykjanesbæ og Sandgerði til frekari skoðunar.
Af þeim átta sem þá eru eftir er Álftanes komið undir fjárhaldstjórn og sérstakur samningur var gerður við bæjaryfirvöld í Bolungarvík. Þau 6 sveitarfélög sem enn eru til skoðunar, vegna ársreiknings 2008, eru Hafnarfjörður, Kópavogur, Borgarbyggð, Grundarfjörður, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað. Þetta eru þau sveitarfélög þar sem fjárhagstaðan er hvað verst að mati eftirlitsnefndarinnar. Sandgerði og Reykjanesbær eru ekki lengur á þeim lista.
Mynd: Oddgeir Karlsson