Reykjanesbær: Niðurskurður vegna óvissu í atvinnuverkefnum
Vegna umfjöllunar í hádegisfréttum fjölmiðla um niðurskurð á rekstri Reykjanesbæjar er nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:
Eins og landsmönnum er kunnugt hafa atvinnuverkefni í Reykjanesbæ ekki gengið eftir, þrátt fyrir yfirlýsingar í stöðugleikasáttmála og vissu um mörg hundruð fjölbreyttra starfa sem þau munu skapa. Innlendar sem erlendar fjármálastofnanir hafa haldið að sér höndum og bíða þess að atvinnuverkefni fari af stað sem valda Reykjanesbæ erfiðleikum, m.a. við endurfjármögnun eldri lána. Á meðan óvissa framkvæmda er svo mikil er ljóst að draga þarf saman í rekstri sveitarfélagsins.
Í bæjarráði Reykjanesbæjar hefur tvívegis (9.sept. og 16.sept.) verið gerð grein fyrir erindi sem sent hefur verið til framkvæmdastjóra sviða og forsvarsmanna allra ráða og nefnda bæjarins þar sem kallað er eftir vinnu ráðanna til að leggja fram hugmyndir um sparnað og niðurskurð. Þar kemur m.a. fram að stefnt sé að amk. 450 milljón kr. niðurskurði á ársgrundvelli. Þá hefur verið leitað til allra starfsmanna með hugmyndir og ábendingar sem nú er verið að fara yfir.
Þessi vinna hófst 9. september sl. og hefur verið farið eftir því verklagi sem við á í þeirri vinnu, sérstaklega því sem snýr að starfsmönnun en ekki er um fjöldauppsagnir að ræða heldur áframhaldandi lækkun á starfshlutfalli í samræmi við verkefni sem í gildi hefur verið allt síðasta ár. Haft hefur verið samband við trúnaðarmenn og verður fundað með þeim í næstu viku. Gert er ráð fyrir að bæjarráð og bæjarstjórn fjalli um umræddar tillögur á næstu dögum.
Allir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar eiga jafnframt fulltrúa í nefndum og ráðum sveitarfélagsins, þar á meðal í bæjarráði þar sem niðurskurðaráform hafa verið kynnt. Fulltrúum þeirra hefur því frá fyrsta degi verið fullkunnugt um yrirhugaðar niðurskurðarhugmyndir.
(Fréttatilkynning frá Reykjanesbæ).