Reykjanesbær mun nýta forkaupsréttinn í HS
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar samþykkti á aukafundi í dag að nýta sér forkaupsrétt til kaupa á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Bærinn hyggst einnig fullnýta réttinn ef aðrir hluthafar falla frá sínum forkaupsrétt.
Í tillögu meirihlutans segir einnig að eðlilegt sé að hæstbjóðandi í hlut ríkisins, Geysir Green Energy, eignist þann hlut og gerist þannig aðili að Hitaveitunni.
Minnihlutinn sat hjá við atkvæðagreiðsluna og vísuðu þar með í bókun sem þau lögðu fram. Þar segir m.a. að A-listinn sé hlynntur því að bærinn beiti forkaupsrétti sínum að hluti ríkisins, en nú sé nauðsynlegt að koma á sátt milli hluthafa um eignarhlutföll innan fyrirtækisins og tryggja stöðu minni hluthafa.
Niðurlag bókunarinnar er sem hér segir:
Ekki þarf á þessu stigi að taka afstöðu til með hvaða hætti sá forkaupsréttur sem hefur skapast, vegna sölu annara hluthafa verði nýttur, en bæjarfulltrúar A-listans telja mikilvægt og leggja áherslu að Hitaveita Suðurnesja verði áfram í meirihlutaeigu almennings svo að áfram verði hægt að tryggja lágt orkuverð á Suðurnesjum.
Frestur eigenda HS til að nýta forkaupsrétt er 60 dagar frá því að erindi um kaupin berst, en enn hafa ekki borist erindi um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hluti Hafnarfjarðar og Grindavíkur eða GGE á hlutum Vestmannaeyjabæjar, Árborgar, Kópavogs, Voga, Sandgerðis og Garðs.
Nokkuð hart var deilt á fundinum sem hófst á því að Árni Sigfússon, bæjarstjóri fór yfir atburðarásina síðustu tvo mánuði síðan tilboði GGE í hlut ríkisins var tekið.
Hann sagði brýnt að verja hagsmuni hitaveitunnar þar sem það væri gríðarlega mikilvægt fyrir Suðurnesin. Hann velti því fyrir sér hvort OR óttist hinn hraða uppgang HS og komi þess vegna inn í kaupin. Það myndi þó aldrei verða að HS yrði skúffufyrritæki hjá Orkuveitunni. Reykjanesbær væri hins vegar í lykilstöðu í málinu og þyrfti alls ekki að fara á taugum í þessu máli. Þeir vildu hins vegar vita hvað OR ætlaði sér.
Talsmenn meirihluta lýstu yfir óánægju sinni með framkomu Grindvíkinga í málinu. Böðvar Jónsson sagði m.a. að samstarf sveitarfélaganna væri í uppnámi, en það hafi komið honum á óvart að Grindvíkingar hafi tekið ákvörðun um að selja hlut sinn án þess að ræða við hin sveitarfélögin á Suðurnesjum. Þá skildi hann ekki hvað Hafnfirðingum gengi til með sínum aðgerðum.
Böðvar sagði anda bæjaryfirvalda í Grindavík e.t.v. speglast í orðalagi í fréttatilkynningu sem bæjarstjórn þeirra sendi frá sér eftir aukafund í dag. Þar segir að með sölu ríksins á hluta sínum í HS hafi orðið: „mikil óvissa um hag minni hluthafa í fyrirtækinu og hætta á því að þeir yrðu fyrir borð bornir“. Þótti Böðvari þetta kaldar kveðjur til meðeigenda.
Þá þótti talsmönnum meirihlutans óeðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur, sem er í beinni samkeppni við HS, væri að koma sér inn í fyrirtækið í skjóli Hafnarfjarðar og Grindavíkur. Þeir útilokuðu hins vegar ekki aðkomu OR í framtíðinni í kjölfar viðræðna.
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-lista, sagði í ræðu sinni að hann væri hissa á aðferðum nágrannasveitarfélaganna í þessu máli og þau væru varla til að þjóna hagsmunum íbúa. Þá lýsti hann því yfir að framtíðarsamstarf sveitarfélaganna, til dæmis innan SSS, væri í uppnámi.
Hins vegar væri ekkert óeðlilegt við að OR kæmi inn í HS þar sem fyrirtækin væru eins uppbyggð, bæði í eigu sveitarfélaga.
Fannst Guðbrandi sem talsmenn meirihlutans hefðu gengið fullhart fram í að fordæma sveitarfélögin og OR. Hann heyrði þar lítinn sáttatón. Hann skildi að hluta til sjónarmið Hafnfirðinga, sem ættu á hættu að sitja á dauðri eign ef þeirra 15% hlutur væri gegn 40% hlut Reykjanesbæjar og allt að 44% hlut Geysis Green Energy.
Nú væri málið í pattstöðu og nú þyrfti að fá fund með Hafnfirðingum og Grindvíkingum til að vinna að laus sem allir gætu sætt sig við.
Ólafur Thordersen, A-lista, kom þar næst í pontu og ýjaði að því að bæjarstjóri hafi gengið erinda GGE í málinu. Mikilvægt væri þó að Reykjanesbær hefði meirihlutaeign í fyrirtækinu á hendi sér til að halda lágu orkuverði.
Böðvar kom þá aftur upp og undraðist hví Guðbrandur tæki málstað Hafnfirðinga, sem gætu haft sömu áhrif með 15% hlut sama hverjir meðeigendurnir væru. Þá sagði hann dapurt að heyra ummæli Ólafs um bæjarstjóra sem hafi í öllu haft hagsmuni bæjarins að sjónarmiði.
Guðbrandur tók aftur til máls og spurði bæjarstjóra hreint út hvort hann vildi að GGE kæmist í meirihlutaeign í HS. Því neitaði Árni snarlega og sagði lykilatriði að verja hagsmuni Suðurnesjamanna. Það væri meirihlutanum mikilvægara en að verja hagsmuni Hafnfirðinga í þessu máli.
Viðtöl af fundinum eru væntanleg hingað á vefinn innan skamms.
Enn dró til tíðinda í þessu máli í dag því Geysir Green Energy, sem hefur gert kaupsamning um hlut ríkisins, Vestmannaeyjabæjar, Árborgar, Kópavogs, Voga, Sandgerðis og Garðs, segist einnig hafa gert kaupsamning við Grindavík um þeirra hlut. Muni þeir leita réttar síns um að staðið verði við þann samning.