Reykjanesbær með hlutverk á Menningarnótt
Reykjanesbær verður gestabæjarfélag á Menningarnótt í Reykjavík 23.-24.ágúst næstkomandi. 
Í ráðhúsinu verður staðið fyrir metnaðarfullri dagskrá allan daginn þar sem listafólk úr bæjarfélaginu mun skemmta gestum og áhugaverðar sýningar  verða í gangi.
Dagskráin, ber yfirheitið Tími til að lifa, verður fjölbreytt. Skipulagðar kynningar verða á bátaflota Gríms Karlssonar, Poppminjasafni Íslands og  Flug og sögusetri Reykjaness. Ljósmyndir þeirra  Oddgeirs Karlssonar og Ellert Grétarssonar af Reykjanesskaganum verða einnig til sýnis í ráðhúsinu við tjörnina.
Einnig verða í gangi kynningar á Reykjanesbæ, orku á Reykjanesi, Bláa demantinum og fl.
Tónlistin verður í stóru hlutverki enda ekki annað við hæfi frá bæjarfélagi sem hefur fóstrað margt tónlistarfólkið. Meðal þeirra sem fram koma eru léttsveit TR, óperusöngvarar, harmonikkuunnendur, Karlakór Keflavíkur, Sigurður Guðmundsson, Hjálmar og rokksveit Rúnars Júlíussonar.





 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				