Reykjanesbær leiti aðstoðar vegna slæmrar fjárhagsstöðu
„Ef í ljós kemur að ekki tekst að endurfjármagna rekstur Reykjanesbæjar með hefðbundnum hætti er ljóst að að leita verður óhefðbundinna leiða við fjármögnun,“ segja bæjarfulltrúar Samfylkingar í bókun sem þeir lögðu fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Í henni segir að þegar sveitarfélög geti ekki lengur staðið í skilum skuli leita aðstoðar sveitarstjórnarráðuneytis sem geti heimilað jöfnunarsjóði að veita viðkomandi sveitarfélagi styrk eða lán. Telja fulltrúar Samfylkingar slíka aðstoð geta nýst Reykjanesbæ vel, að því er fram kemur í bókun þeirra.
„Öllum er ljóst að fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er afar slæm um þessar mundir, langvarandi rekstrarhalli sveitarfélagsins kemur nú illa niður á íbúum og við því verður að bregðast. Ekki gengur lengur að kenna öðrum um okkar stöðu, við þurfum sjálf að koma okkur á réttan kjöl.
Sveitarfélagið hefur ekki staðið í skilum við sína lánadrottna og fyrirsjáanlegt er að fram- undan séu erfiðir tímar sem munu reyna enn frekar á þolrif bæjarsjóðs.
Bæjarfulltrúum öllum ber skylda til að skoða allar leiðir til úrlausnar og leita að heildstæðri lausn á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs. Við þurfum að sýna ábyrgð og þor í okkar ákvörðunum í því skyni að bæta hag íbúa Reykjanesbæjar.
Skýrt kemur fram í lögum að þegar sveitarfélög geta ekki lengur staðið í skilum skuli leita aðstoðar Sveitastjórnarráðuneytisins sem getur heimilað jöfnunarsjóði sveitarfélaga að veita bæjarsjóði styrk eða lán.
Slík aðstoð myndi nýtast Reykjanesbæ vel og gefa bæjarstjórn ráðrúm til þess að ráðast í gagngera heildarendurskoðun og uppstokkun í fjármálum sveitarfélagsins á yfrvegaðan hátt,“ segir í bókun Samfylkingarinnar.