Reykjanesbær lætur undan þrýstingi foreldra
Reykjanesbær mun áfram niðurgreiða vistun hjá dagmæðrum með sama hætti og áður og fyrirhuguð skerðing á niðurgreiðslum tekur ekki gildi. „Ég viðurkenni að þessi ákvörðun okkar var ekki í anda þeirrar miklu uppbyggingar í þágu fjölskyldunnar sem við viljum standa fyrir og við viljum því leiðrétta hana. Við höfum ákveðið að verða við óskum foreldra og verðandi foreldra og halda áfram niðurgreiðslum með sama hætti og var fyrir áramót. Fyrirhuguð breyting gengur því ekki í gildi,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í grein sem hann ritar í Víkurfréttir í dag.