Reykjanesbær hlaut hvatningaverðlaun Heimilis og skóla
Reykjanesbær hlaut í dag hvatningarverðlaun samtakanna Heimili og skóli. Verlaunin afhenti menntamálaráðherra í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Eiríkur Hermannsson, framkvæmdastjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Reykjanesbæjar. Hvatningarverðlaunin hlaut Reykjanesbær fyrir að styðja við bakið á foreldrastarfi með veitingu styrks til ráðningu verkefnistjóra FFGÍR, (Foreldraráð og foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ).
Fleiri verkefni á Suðurnesjum fengu tilnefningu til verðlauna, m.a. málþingið Háttvísi-Hugvit-Heilbrigði, sem starfsfólk Heiðarskóla í Reykjanesbæ stóð fyrir í febrúarmánuði.
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru að þessu sinni veitt Íþróttafélaginu Gróttu á Seltjarnarnesi fyrir samræmingu skóladags og æfingatíma í samvinnu við bæjaryfirvöld og Grunnskóla Seltjarnarness. Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt tvenn hvatningarverðlaun og ein dugnaðarforkaverðlaun.
Guðlaug Snorradóttir og starfsfólk Nýbúadeildar við Hjallaskóla í Kópavogi hlaut einnig hvatningarverðlaun, fyrir óeigingjarnt starf í þágu nýbúa.
Dugnaðarforkaverlaunin að þessu sinni hlaut Hlynur Snorrason fyrir forvarnarverkefni í Grunnskólum Ísafjarðarbæjar.
Alls bárust 31 tilnefningar til foreldraverðlauna Heimilis og skóla og voru 24 verkefni tilnefnd. Foreldraverðlaunin hafa unnið sér fastan sess í samfélaginu og vekja athygli á þeim mörgu verkefnum sem efla starf grunnskólanna og öflugt og jákvætt samstarf heimila, skóla sveitarfélaga og samfélagsins alls.
Aðalmarkmiðið með veitingu Foreldraverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem unnið er á fjölmörgum sviðum í grunnskólum landsins. Við veitingu verðlaunanna er sérstaklega litið til verkefna sem hafa eflt samstarf foreldra og skólastarfsmanna og komið á uppbyggjandi hefðum í samstarfi þessara aðila. Í ár var sérstaklega horft til sveitarfélaga og félagasamtaka sem styðja markvisst við foreldrasamtök og foreldra í sínu sveitarfélagi. Það er í fyrsta sinn sem það er gert.
Í greinargerð með tilnefningu segir m.a.:
Samstarf heimilis og skóla er öflugt í Reykjanesbæ enda gerir Reykjanesbær foreldrafélögum og foreldraráðum kleift að ráða starfsmann í 50% stöðu til að sinna forvarnarmálum og samstarfi heimilis og skóla með árlegum styrk úr Manngildissjóði bæjarfélagsins. Starfsmaður FFGÍR undirbýr fundi félagsins, sér um afgreiðslu erinda af fundum og fylgir málum og sérstökum verkefnum eftir. Hann er líka fulltrúi FFGÍR í ýmsum faghópum s.s. Samtakahópnum í Reykjanesbæ, samtökum Heimilis og skóla og varamaður formanns í fræðsluráði Reykjanesbæjar svo eitthvað sé nefnt. Starfsmaður FFGÍR sér líka um heimasíðu félagsins ffgir.is Hann nær að byggja upp samskipti við kennara, fræðsluyfirvöld og foreldra og viða að sér mikilli reynslu þegar kannski mikið er um breytingar í stjórnum félaga eins og algengt er. Hann er trúr þeirri meginstefnu sem FFGÍR starfar eftir og ímynd foreldrastarfsins er því stöðugra og trúverðugra. Starfsmaður í hálfu starfi gerir gæfumuninn í öllu starfi FFGÍR sem annars er keyrt á sjálfboðavinnu. Starfmaður FFGÍR hefur þróað samskipti við hina ýmsu aðila, byggt upp þekkingarbrunn og það sem mest er um vert getur veitt foreldrum í foreldrafélögum og ráðum hvers skóla stuðning í hverju því sem þeir taka sér fyrir hendur.
Umsögn dómnefndar:
Hér er á ferð verkefni sem sýnir framsýni sveitarfélags í skólamálum. Með því að leggja foreldrastarfi til starfsmann skapast samfella í foreldrastarfinu, reynslan safnast upp og þegar nýir foreldrar koma inn í starfið hafa þeir bakhjarl með reynslu. Með því að styrkja foreldrastarf með þessum hætti sýnir Reykjanesbær breyttt viðhorf til menntamála og er fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög.
Af vef Reykjanesbæjar: www.rnb.is