Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær fái um 75% útgjalda vegna fjárhagsaðstoðar endurgreidd frá ríkinu
Sunnudagur 4. júní 2023 kl. 06:04

Reykjanesbær fái um 75% útgjalda vegna fjárhagsaðstoðar endurgreidd frá ríkinu

Helga Jóhanna Oddsdóttir, Sjálfstæðisflokki, óskaði eftir svörum bæjaryfirvalda við spurningum er varða fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar vegna 6. máls úr fundargerð velferðarráðs Reykjanesbæjar þann 22. mars 2023. Þar kom fram að í febrúar 2023 fengu 365 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, 220 karlar og 145 konur. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 88 heimila sem á bjuggu 184 börn. Alls voru greiddar 55.018.424 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali 150.735 kr. pr. einstakling. Í sama mánuði 2022 fengu 152 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, 106 karlar og 46 konur. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 34 heimila sem á bjuggu samtals 88 börn. Alls voru greiddar 24.199.275 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali 159.205 kr. pr. einstakling.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, lagði fram svör við fyrirspurn Helgu Jóhönnu en eftirfarandi er fyrirspurnin og svör við henni:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjárhagsaðstoð í febrúar 2022 og 2023 til samanburðar. Þarna er um aukningu útgjalda um 127% að ræða og fjölgun heimila um 158%. Ég (Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki) óska eftir því að bæjarfulltrúar fái nánari greiningu á því hvað býr að baki þessari miklu aukningu.

1. Er þetta hrein útgjaldaaukning sem lendir á sveitarfélaginu eða fáum við einhverjar greiðslur á móti, t.d. frá ríkinu?

Svar: Nei, hér er ekki um hreina útgjaldaaukningu hjá sveitarfélaginu að ræða. Varlega má áætla að Reykjanesbær fái um 75% þessara útgjalda endurgreidd frá ríkinu eða rúmlega 41 m.kr. vegna flóttafólks sem fengið hefur vernd á Íslandi og er búsett í Reykjanesbæ. Langfjölmennast í þeim hópi er flóttafólk frá Úkraínu og Venesúela.

2. Hversu stór hluti hennar er vegna íbúa sem hafa búið skemur en ár í sveitarfélaginu?

Svar: 238 íbúar af þeim 365 sem fengu greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu í febrúar 2023 hafa búið skemur en eitt ár í sveitarfélaginu. 57 hafa búið eitt til þrjú ár í sveitarfélaginu og 70 hafa búið lengur en fjögur ár.

3. Hversu stór hluti fellur til vegna umsækjanda um alþjóðlega vernd?

Svar: Ekkert af greiddri fjárhagsaðstoð fellur til vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá greitt skv. sérstökum samningi við ríkið og ber ríkið þann kostnað. Sveitarfélagið leggur út fyrir þeim kostnaði og fær hann að fullu endurgreiddan.

4. Hverjar eru helstu ástæður þess að þessi stóri hópur þurfi fjárhagsaðstoð, nú þegar atvinnuleysi hefur sjaldan verið minna á svæðinu og fyrirtæki keppast um að ráða til sín starfsfólk.

Svar: Langfjölmennasti hluti þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð eru utan vinnumarkaðar og eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta eða eru með skert réttindi hjá Vinnumálastofnun. Ástæða þess getur verið að einstaklingar hafi ekki áunnið sér að fullu rétt til atvinnuleysisbóta eða hafi fullnýtt réttindi sín hjá Vinnumálastofnun á undanförnum árum í því háa atvinnuleysi sem ríkt hefur á Suðurnesjum.

75% þeirra sem voru á fjárhagsaðstoð í febrúar sl. áttu ekki rétt til atvinnuleysisbóta eða áttu mjög skertan rétt.

Ekki liggur fyrir greining á ástæðu þess að þeir sem eru á fjárhagsaðstoð komast ekki inn á vinnumarkaðinn en gera má ráð fyrir því að ástæðurnar séu fjölþættar, m.a. að ekki finnist vinna við hæfi, t.d. vegna skertrar starfsgetu, menntun er ekki í samræmi við þarfir vinnumarkaðarins, tungumálahindranir eða heilsufarsástæður svo eitthvað sé nefnt. Einnig er vinnumarkaðurinn að flytja inn erlent vinnuafl til starfa og má ætla að það hafi líka áhrif á starfsmöguleika fólks í atvinnuleit.

5. Getum við fengið greiningu á því hvernig staðan er á vinnumarkaði á hverjum tíma til samanburðar?

Svar: Velferðarsvið hefur ekki undir höndum aðrar upplýsingar en þær sem hægt er að nálgast hjá Vinnumálastofnun. Þar sjáum við að atvinnuleysi milli febrúar 2022 og febrúar 2023 hefur minnkað verulega á milli þessara mánaða/ára og meira á Suðurnesjum en á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu sem er jákvætt. Atvinnuleysið er þó enn hærra á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni sem er miður.

Atvinnuleysi febrúar 2022

Suðurnes 9,50%

Landsbyggðin 5,20%

Höfuðborgarsvæðið 5,30%

Atvinnuleysi febrúar 2023

Suðurnes 5,80%

Landsbyggðin 3,40%

Höfuðborgarsvæðið 3,80%