Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Laugardagur 20. maí 2000 kl. 14:01

Reykjanesbær fær Nikkelsvæðið afhent

-hreinsun svæðisins forgangsatriði. Skriður eru komnar á afhendingu Nikkel svæðisins en sl. þriðjudag barst Reykjanesbæ bréf frá Utanríkisráðuneytinu þar sem bænum er boðið landið á leigu til 99 ára. Heyrst hafa áhyggjuraddir varðandi mengun á svæðinu en samkvæmt skýrslu óháðra aðila er mengunin á svæðinu viðráðanleg. Leigusamningurinn í athugun Skúli Þ. Skúlason (B), forseti bæjarstjórnar, staðfesti þetta í samtali við VF. „Það er rætt, ráðuneytið hefur boðið okkur landið á leigu til 99 ára og síðan með framlengingu í önnur 99 ár. Í bréfinu eru skilgreind þau kjör sem fylgja leigusamningi og sjálfsagt fyrir okkur að setjast niður með ráðuneytinu og klára málið.“ Mengunin viðráðanleg Skúlið segir málið fyrst og fremst snúast um hreinsun svæðisins og tekur fram að ásýnd þess sé öllum bæjarbúum mikið áhyggjuefni. „Um svæðið er forljót girðing og þarna standa 5 olíutankar, tvær gamlar þjónustubyggingar og leiðslur ofan- og neðanjarðar. Delisle Associates LTD og Keflavíkurverktakar, unnu umhverfisúttekt á svæðinu í árslok 1998 í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Sýnin voru send Iðntæknistofnun og Háskóla Íslands til rannsóknar. Niðurstöður þessara rannsókna sýna að svæðið virðist ekki vera alvarlega mengað og að sú mengun sé viðráðanleg“, segir Skúli en því má bæta við að Heilbrigðiseftirlitið gaf sérstaka umsögn og þar segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að svæðið verði nýtt fyrir íbúða- og þjónustubyggingar. Reykjanesbær tekur að sér hreinsunina Utanríkisráðuneytið hefur boðið Reykjanesbæ að taka að sér hreinsun svæðisins en Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kemur til með að spila lykilhlutverk í eftirliti með hreinsun svæðisins. „Mér þykir ekki óeðlilegt að við höfum forgöngu um hreinsunina þar sem við ætlum að nýta svæðið. Svo er fyrirvari í tilboðinu þar sem segir að komi eitthvað ófyrirséð fram um ástand landsins eins og gengið var útfrá við samningsgerð, áskilja aðilar sér rétt til að semja um það sérstaklega. Þetta tryggir okkur fyrir óvæntum atriðum“, segir Skúli. Mengun mokað á brott Nú hafa margir lýst áhyggjum sínum yfir PCB og blýmengun á vissum stöðum á Nikkelsvæðinu. Þetta eru ekki niðurbrjótanleg efni og geta verið mönnum hættuleg ef þeir komast í of nána snertingu við þau. Hvað verður gert við svæðin þar sem PCB og blý hefur fundist í jarðvegi? „Þeim jarðvegi verður mokað í burtu og jafnvel notaður síðar í uppfyllingar við vegagerð. Auðvitað verður tekið tillit til þessara svæða við deiliskipulagningu, þannig að götur og stærri mannvirki verða á stöðum þar sem svæðið er viðkvæmara.“ Ekkert leigugjald til ríkisins Að sögn Skúla hefur Utanríkisráðuneytið boðið Reykjanesbæ landið til leigu og að leigugjaldið verði 1.2% af fasteignamati þeirra eigna sem þar eiga eftir að rísa. „Þetta skilst mér að sé í samræmi við aðra sambærilega leigusamninga. Reykjanesbær þarf þá ekki að standa skil á leigugjaldinu meðan verið er að greiða upp hreinsunina en samkvæmt tilboði ráðuneytisins mun Reykjanesbær taka að sér að fjármagna og hreinsa svæðið. Leigugjaldið mun síðan renna upp í hreinsunarkostnað þangað til að hann er að fullu greiddur.“ 430 nýjar íbúðir Samkvæmt aðalskipulagi Reykjanesbæjar fyrir 1995-2015 er áætlað að 430 íbúðir geti risið á svæðinu og nýtingarhlutfall svæðisins verði um 48.6 % eða um 69 hektarar. Þarna verða líka iðnaðarlóðir og opinberar byggingar. „Miðað við fullbyggt svæði er gert ráð fyrir því að lóðarleiga, 2% af fasteignarmati, gæti verið um 4 millj. kr. Eftir að svæðið hefur byggst upp, verður árlegt leigugjald til ríkisins rúmlega 2 millj.kr. sem renna uppí hreinsunarkostnaðinn“, segir Skúli. 138-20 Keflavíkurverktakar með 24 milljón króna hagnað -greiða 63 milljónir króna út í arð Rekstur Keflavíkurverktaka skilaði 24 millj. kr. hagnaði á síðari hluta ársins 1999 og veltan nam 828 millj.kr. Á aðalfundi Keflavíkurverktaka, sem fram fór fyrr í þessum mánuði, var samþykkt að greiða út 63 millj. kr. í arð til hluthafa. Fyrirtækið var formlega stofnað 20. október sl. með sameiningu Byggingaverktaka Keflavíkur ehf., Járn- og pípulagningaverktaka Keflavíkur ehf., Málaraverktaka Keflavíkur ehf. og Rafmagnsverktaka Keflavíkur ehf. Sameiningin miðast við 1. júlí og er reikningurinn fyrsta uppgjör sameinaðs félags. Samkvæmt þessum niðurstöðum má ætla að velta félagsins sé um 1,6 milljarður króna, en það jafngildir að Keflavíkurverktakar séu í hópi fimm stærstu verktakafyrirtækja landsins. Hlutahafar Keflavíkurverktaka eru 182 að tölu en aðeins tveir þeirra eiga stærri hlut en 5%. Jakob Árnason á 10,8% hlut og Bragi Pálsson á 8% hlut. Á aðalfundi Keflavíkurverktaka, sem fram fór fyrr í þessum mánuði, var samþykkt að greiða út arð sem samsvarar 20% af nafnvirði hlutafjár, eða um 63 milljónir króna. Engar breytingar voru gerðar á stjórn félagsins á fundinum en hana skipa Sigurður H. Guðmundsson, Einar G. Björnsson, Guðrún S. Jakobsdóttir, Jóhann R. Benediktsson og Bragi Pálsson sem er stjórnarformaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024