Reykjanesbær ekki á leið í greiðsluþrot, segir formaður bæjarráðs
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir bæjarsjóð ekki á leið í greiðsluþrot. Greiðslufall sé ekki það sama og greiðsluþrot. Ljóst er fjárhagsáætlun bæjarins hefur ekki staðist þar sem áætlaðar tekjur af framkvæmdum, s.s. vegna álvers í Helguvík, skila sér ekki eins og gert var ráð fyrir.
Eins og fjölmiðlar hafa greint frá í dag gjaldféll lán upp á 1,8 milljarð króna á Reykjanesbæ um síðustu mánaðamót. Bærinn gat m.ö.o ekki greitt lánið frá þýska bankanum Wurthemberger sem nú er í slitameðferð. Ekki hefur tekist að endurfjármagna lánið og munu bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ætla að freista þess að selja sex milljarða króna skuldabréf með veði í 16% hlut í HS Orku en bréfið fékk bærinn við sölu á hlut sínum.
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, var inntur eftir því hvort þetta þýddi ekki í raun að bæjarfélagið væri að sigla í greiðsluþrot?
„Ég get alls ekki tekið undir það að sveitarfélagið sé að sigla í greiðsluþrot. Vegna vandkvæða við endurfjármögnun þessa erlenda láns varð greiðslufall á bréfinu en það er allt annað en að tala um greiðsluþrot. Reykjanesbær á heilmiklar eignir, peningalegar eignir, sem standa vel undir þeim skuldum sem sveitarfélagið er í.
Við höfum talið eðlilegt að reyna til hins ítrasta að semja um endurfjármögnun þýska lánsins áður en farið verður í aðrar aðgerðir. Það hefur tafist og því hefur ekki verið unnt að ganga frá greiðslunni sem var í byrjun þessa mánaðar. Ef í ljós kemur að ekki verði mögulegt að semja við þessa erlendu aðila verður að ganga í að losa þær peningalegu eignir sem sveitarfélagið á og ég tel að það eigi að vera mögulegt þó vissulega sé erfitt með fjármagn á innlendum vettvangi líka,“ svaraði Böðvar í samtali við VF.
Reykjanesbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur haft til skoðunar vegna skuldastöðu þeirra. Reykjanesbær fékk ásamt fleiri sveitarfélögum aðvörun á síðasti ári. Í tilfelli Reykjanesbæjar var á það bent að bregðast þyrfti við ef ný atvinnutækifæri myndu ekki skila auknum tekjum á árinu eins og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þá var þess getið að skuldir og skuldbindingar væru yfir viðmiðunarmörkum nefndarinnar þegar til lengri tíma væri litið.
Lögum samkvæmt eiga sveitarfélög sem ekki geta greitt af lánum að óska eftir aðstoð eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar í Reykjanesbæ, skrifar aðsenda grein á vf.is í dag þar sem hann segir kolrangar þær „fullyrðingar sjálfstæðismanna í aðdraganda kosninganna í vor um að fjármál Reykjanesbæjar væru í góðu lagi“.
Böðvar segist ekki geta tekið undir þetta. „Við bentum á að eiginfjárstaða sveitarfélagsins væri sterk og miðað við þau atvinnuverkefni sem væru í undirbúningi þá myndu auknar tekjur skila sér inn til bæjarsjóðs seinni hluta ársins. Nú er komið í ljós að þessi verkefni eru að tefjast og þar með heldur atvinnuleysi áfram að vera hátt og tekjur íbúa og sveitarfélagsins bregðast þar með.
Niðurstaða fyrstu þrjá mánuði ársins 2010 voru mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og svo er einnig þegar skoðaðir eru fyrstu 6 mánuðir ársins. Hins vegar er alveg ljóst að tekjuáætlun mun ekki standast á seinni hluta ársins. Þess vegna verðum við að taka ákvörðun um hvort farið verður í niðurskurð þjónustu eða gengið verður á eignir á meðan beðið er eftir að atvinnuverkefnin verði að veruleika,“ sagði Böðvar.