Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær: Deilt um Fasteign hf. í bæjarráði
Laugardagur 29. mars 2008 kl. 16:48

Reykjanesbær: Deilt um Fasteign hf. í bæjarráði



Ekki er einhugur innan bæjarráðs Reykjanesbæjar um breytingartillögur á samþykktum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. Þar er kveðið á um uppskiptingu félagsins í tvo hluta og skrá félagið í opinberri skráningu á markað.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Minnihluti A-lista lagði fram bókun á fundi bæjarráðs á fimmtudag þar sem segir m.a. að fyrirhugaðar breytingar gangi á svig við sveitarstjórnarlög og hyggjast þeir kæra málið.

 

Í stað þess að skipta félaginu upp segja fulltrúar A-listans að nær sé: „fyrir sveitarfélögin innan EFF að skoða alvarlega að leita leiða til að leysa félagið upp og kaupa aftur eignir sínar út úr félaginu og hagnast í leiðinni verulega á hlutabréfaeign sinni í EFF.“

 

Meirihlutinn svarar því til breytingin verði sveitarfélögum til góðs og segja m.a. í bókun sinni: „Fyllilega hefur verið tryggt að staða sveitarfélaga er því sterkari eftir breytingarnar, félagið verður gegnsærra. Stækkun félagsins verður til þess að vaxtakjör eiga að verða enn betri og stjórnunarkostnaður lægri.“

 

Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins var samþykkt með atkvæðum meirihlutans. Minnihlutinn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

 

Bókanirnar fylgja hér á eftir í heild sinni:

 

Fulltrúar A-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

 

Afsal á eignum án endurgjalds.

Við styðjum ekki fram komnar tillögur stjórnar Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. (EFF) um breytingar á samþykktum félagsins. Við teljum raunar að fulltrúum sveitarfélagsins sé óheimilt að samþykkja þessar breytingar f.h. þess, framsal á eignum sveitarfélagsins með þessum hætti er að okkar mati er einfaldlega óheimilt.

Við lýsum yfir undrun á tillögum stjórnar EFF og vörum alvarlega við þeim.

Fyrir liggur álit endurskoðanda Reykjanesbæjar, Guðmundar Kjartanssonar dags. 10.12.2007, en þar segir m.a.:

 

“Upphaflega var það einn af kostum þess að ganga í EFF að sveitarfélagið hagnaðist af hækkun hlutabréfanna í EFF en ákvæði í fyrirhugaðri yfirlýsingu skerða þann hagnað.”

 

Þá heldur Guðmundur áfram í sínu áliti:

“Undirritaður bendir á að ef vilji er til að afsala hagnaði til EFF sé rétt að skilgreina þann útreikning betur”

 

Bæjarfulltrúar A-listans taka undir þetta álit og telja ljóst að tillögur stjórnarinnar skerða verulega verðmæti eignarhluta Reykjanesbæjar í EFF. Farið hefur fram verðmat á EFF á vegum stjórnar þess. Verðmatið er unnið af Glitni banka og yfirfarið af KPMG. Miðað við verðmat Glitnis banka hefur hlutur Reykjanesbæjar í krónum talið hækkað um 895 milljónir. Fyrirhugaðar breytingar á samþykktum EFF setja þennan hagnað í uppnám og jafngildir í raun og veru afsali á þessum fjármunum. Slíkt er ekki heimilt skv. góðri stjórnsýslureglu að okkar mati og áskiljum við okkur rétt til að leita allra leiða til að koma í veg fyrir þennan gjörning. Við munum beita þeim úrræðum sem lög veita okkur til að verja hagsmuni og eignir sveitarfélagsins. Þá er mat á virði EFF sem unnið er af Glitni ekki nein vísindi og má vel færa rök fyrir því að verðmatið sé of lágt og því í raun um talsvert meiri fjármuni að ræða en hér er reiknað með. T.d. hafa tvær af eignum EFF á höfuðborgasvæðinu verið metnar af fasteignasala og er markaðsverð þeirra u.þ.b. 60% hærra en núvirt sjóðstreymi þessara eigna í verðmati Glitnis.

Þá teljum við að fyrirhugaðar breytingar á samþykktum EFF falli undir 65.gr. sveitastjórnarlaga sem kveður á um að afla skuli álits sérfróðs aðila áður en sveitarstjórn staðfestir samninga sem gilda eiga til langs tíma. Við munum því nýta okkur 103. gr. sveitastjórnarlaga og kæra ákvörðun nefndarinnar dags 29.02.08 til samgönguráðuneytisins.

 

Þá er það tillaga stjórnar EFF að greiða Glitni banka umtalsverða fjármuni, eða a.m.k. jafngildis 200 milljónir fyrir þessa “viðskiptahugmynd og framkvæmd hennar”, án útboðs, sem er óeðlilegt og ámælisvert, ekki síst í ljósi þess að það liggur fyrir að sá sem hagnast mest á þessum breytingum er Glitnir banki.

 

Bæjarfulltrúar A-lista sjá ekki tilganginn með þessari breytingu fyrir Reykjanesbæ. Hins vegar er augljóst að breytingin kemur þeim aðilum mjög til góða sem hyggjast skrá hlutabréf sín í EFF sem B-hlutabréf og setja þau á markað, enda eru slíkir aðilar ekki skyldugir til að skrifa undir yfirlýsingu og afsala sér þeirri hækkun sem orðið hefur á hlutabréfunum. Eðli máls samkvæmt er sveitarfélögunum í EFF ætlað að vera með svokölluð A-hlutabréf sem eru ekki markaðsvara og því ætlað að undirrita yfirlýsingu um afsal á þeim óinnleysta hagnaði sem orðið hefur með aðild Reykjanesbæjar að fyrirtækinu.

Miklu nær væri fyrir sveitarfélögin innan EFF að skoða alvarlega að leita leiða til að leysa félagið upp og kaupa aftur eignir sínar út úr félaginu og hagnast í leiðinni verulega á hlutabréfaeign sinni í EFF.

 

Guðbrandur Einarsson og Eysteinn Jónsson

 

Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun:

 

Breytingin gengur út á að skipta hlutafé félagsins í tvo flokka og skrá félagið í opinberri skráningu á markað. Með skiptingu í tvo flokka er verið að styrkja stöðu sveitarfélaga innan félagsins, þar sem þau halda með því ótvíræðum meirihluta í þeim hluta félagsins sem heldur utan um fasteignir sveitarfélaga. Það er mat hluthafa að breytingin sé sveitarfélögum til góðs.

Ítarlega hefur verið farið yfir allar forsendur breytinga og öllum bæjarfulltrúum gefinn kostur á að koma með athugasemdir sem hlustað hefur verið á. Málið hefur verið sérstaklega kynnt á fundum með hluthöfum og aðalfundi sem sveitarstjórnarmönnum var frjálst að sækja og taka þátt í. Fyllilega hefur verið tryggt að staða sveitarfélaga er því sterkari eftir breytingarnar, félagið verður gegnsærra. Stækkun félagsins verður til þess að vaxtakjör eiga að verða enn betri og stjórnunarkostnaður lægri. Farið hefur verið yfir álit endurskoðanda frá 10.12.´07 og fullt tillit er tekið til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram. Öllum gífuryrði um annað eru pólitískur leikur manna sem hafa verið á móti félaginu frá upphafi. Glitnir fær ekkert fyrir undirbúningsvinnu sína ef engin breyting verður á umfangi félagsins. Fullyrðing A-listans er því ósönn.

 

Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Garðar K. Vilhjálmsson.


Loftmynd/Oddgeir Karlsson - Sundmiðstöðin í Keflavík er meðal eigna Fasteignar í Reykjanesbæ