Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Reykjanesbær: Átak í íslenskunámi nýbúa
Mánudagur 9. janúar 2006 kl. 17:30

Reykjanesbær: Átak í íslenskunámi nýbúa

Á síðasta fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar var ákveðið að ráðast í átaksverkefni til að styðja við íslenskunám þeirra íbúa sveitarfélagsins sem eru af erlendum uppruna og íslenskra barna sem hafa alist upp á erlendri grundu.

Verkefnið er að tillögu Huldu Bjarkar Þorkellsdóttur, fulltrúa Samfylkingar í fræðsluráði, og verður sett á laggirnar þverfaglegri verkefnisstjórn með fulltrúum frá Fræðsluráði, Menningar- íþrótta- og tómstundaráði og FFR. Verkefnið verður unnið út frá fjölmenningarstefnu bæjarins og lestrarmenningarverkefninu.

Meginverkefnin verði að:
-tryggja fullorðnum íslenskukennslu á viðráðanlegum kjörum

-veita stuðning við máltölu leikskólabarna m.a með því að byggja upp hljóðbókasafn með vönduðum upplestri á bókum sem fjölskyldur geta fengið lánaðar heim

-veita stuðning við íslenskunám í grunnskólum til allra sem þess þarfnast

-veita stuðning við íslenskunám í framhaldsskólum til allra sem þess þarfnast

-tryggja öllum leik-, grunn- og framhaldsskólanemum sem þess þarfnast viðtöl með aðstoð túlka a.m.k. tvisvar á ári

Hulda Björk sagði í tilllögu sinni að Reykjanesbær verði fremstur sveitarfélaga í þjónustu við innflytjendur og öðrum fyrirmynd í þessum málaflokki og minntist einnig á forvarnargildi slíks verkefnis.

Máli sínu til stuðnings vitnaði Hulda í yfirlýst markmið „Lestrarmenning í Reykjanesbæ“, og greinargerð ráðgjafarnefndar um viðurkenningar á Degi íslenskrar tungu fyrir viðurkenningu til Reykjanesbæjar 2005 vegna Lestrarmenningarverkefnisins.

Í báðum tilfellum var lögð áhersla á að bæta aðstöðu innflytjenda og annarra sem hefðu veikari forsendur en aðrir til að ná tökum á íslensku.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024