Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Reykjanesbær aftur á rétta braut
Frá fundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Fimmtudagur 1. janúar 2015 kl. 19:39

Reykjanesbær aftur á rétta braut

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2015 endurspeglar íþyngjandi skuldastöðu bæjarfélagsins. Brýn nauðsyn er að ná utan um stöðuna þar sem reksturinn hefur ekki verið að skila nægilegri framlegð til að standa við skuldbindingar bæjarins, segir m.a. í bókun bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Frjáls afls og Samfylkingar og óháðra í bæjarstjórn 30. desember 2014.

Fjárhagsáætlunin er byggð á úttekt fagaðila, unnin í samráði við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og staðfest í samkomulagi bæjarins við innanríkisráðherra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lögð er áhersla á hagræðingu í rekstri bæjarfélagsins og B-hluta fyrirtækja en einnig er gert ráð fyrir auknum skatttekjum með hærri álagningu í útsvari og fasteignasköttum. Hagræðingin í rekstrinum snýr í fyrsta lagi að þeim launaliðum sem tilheyra ekki föstum launum. Þar er um að ræða greiðslur fyrir notkun bifreiða starfsmanna en framvegis verður einungis greitt fyrir akstur sem starfsmenn aka sannarlega fyrir bæjarfélagið skv. skráningu í akstursbók. Þá verður dregið úr greiðslum fyrir yfirvinnu.

Varðandi hagræðingu í öðrum rekstrarútgjöldum þá er sjónum fyrst og fremst beint að þeim verkefnum sem ekki eru lögbundin en þó er reynt að verja þjónustu sem snýr að barnafjölskyldum.  Þannig eru leikskólagjöld óbreytt, hvatagreiðslur auknar og aukin framlög til foreldra sem nýta sér þjónustu dagmæðra meðan umönnunargreiðslur til foreldra eru felldar niður. Með því er reynt að ýta undir framboð á þjónustu dagmæðra þannig að þær fjölskyldur sem hafa nýtt sér umönnunargreiðslur geti nýtt sér þá þjónustu.

Áfram verður unnið að því að fjölga fjölbreyttum atvinnutækifærum m.a. með áframhaldandi uppbyggingu í Helguvík. Þá verður unnið að því að koma í not öllum þeim íbúðum sem standa auðar, svo og öllum þeim lóðum sem er búið að gera klárar fyrir byggingar bæði fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði.    

Markmið fjárhagsáætlunarinnar er að rekstur sveitarfélagsins skili afgangi sem nýtist til niðurgreiðslu uppsafnaðra skulda og aukinnar þjónustu við íbúa þegar fram líða stundir. Hér kveður við ábyrgari tón í rekstri bæjarins en áður sem mun verða til þess að gera rekstur sveitarfélagsins sjálfbæran og koma Reykjanesbæ á rétta braut á nýjan leik, segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar.

Guðný Birna Guðmundsdóttir
Eysteinn Eyjólfsson
Guðbrandur Einarsson
Anna Lóa Ólafsdóttir
Gunnar Þórarinsson
Elín Rós Bjarnadóttir