Reykjanesbær að draga sig úr samstarfi sveitarfélaga?
- Munum þurfa að taka afdrifaríkar ákvarðanir á næstunni. Sameining sveitarfélaga hagkvæm, segir formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.
„Skuldastaða Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar er stórmál. Við erum í miklum erfiðleikum af þeim sökum og munum af þess vegna endurskoða alla liði í samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ef við sjáum möguleika á að ná fram meiri peningum úr einhverjum með því að hætta samstarfi munum við gera það,“ sagði Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar í þrumuræðu við upphaf aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja nú síðdegis.
Það mátti heyra saumnál detta þegar Friðjón flutti ræðu sína og Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar fylgdi henni eftir með öðru eins. Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum á sér fjörutíu ára sögu en á undanförnum árum hefur mátt greina undiröldu í Reykjanesbæ sem hefur oft talið sig græða minnst á þessu samstarfi og í raun veru talið sig vera niðurgreiða ýmsa þjónustu fyrir hin sveitarfélögin. Reykjanesbær er lang stærsti aðilinn í samstarfinu og hann hefur heldur ekki talið sig hafa vægi í samanburði við stærð. Ljóst er að fari hann úr samstarfinu mun það geta haft alvarleg áhrif á hin sveitarfélögin, alla vega Garð, Sandgerði og Voga. Grindavík er í lang sterkustu stöðunni, næst stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og myndi þola slíkar breytingar best. Þá er Grindavík heldur ekki með í öllum þáttum samstarfsins, eins og t.d. í rekstri brunavarna. Hluti af því sem Reykjanesbær hefur verið óánægður með er viðhorf hinna sveitarfélaganna gagnvart kaupum á margvíslegri þjónustu Reykjanesbæjar sem gæti verið ódýrari kostur fyrir þau en að sjá um reksturinn sjálf. Í leiðinni myndi það auka tekjur Reykjanesbæjar.
Friðjón sagði að nauðsynlegt væri fyrir Reykjanesbæ að gera núna það sem hentaði honum best því það vantar aura í tóman bæjarsjóð. Í morgun tilkynnti Reykjaneshöfn að vegna dráttar á samningsbundnum greiðslum til hennar hefur höfnin óskað eftir fjármögnun hjá Reykjanesbæ til að geta staðið skil af skuldbindingum sem eru á gjalddaga 15. október næstkomandi. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að vegna yfirstandandi vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar sé óvíst hvort bærinn geti fjármagnað greiðslurnar. Því geti komið til greiðslufalls hjá Reykjaneshöfn.
„Ríkið er búið að draga lappirnar og svarar okkur ekki einu sinni varðandi fjárframlag til hafnarinnar. Við upplifum okkur bara ein. Við munum því þurfa að taka afdrifaríkar ákvarðanir á næstunni og munum gera það allt sem þarf til að ná í auknar tekjur. Það gæti gerst með því að segja upp samstarfi í ýmsum þáttum sem sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa gert saman. Við viljum t.d. strax selja gamla dvalarheimili aldraðra, Garðvang í Garði,“ sagði Friðjón en eftir opnun hjúkrunarheimilisins Nesvalla í Reykjanesbæ fóru allir vistmenn þangað. Gamalt og stórt húsnæði stendur autt í Garðinum. Sveitarfélögin eru saman í rekstri DS, dvalarheimila aldraða.
Friðjón sagði m.a. að nú þyrfti líka að huga alvarlega að frekari sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það væri deginum ljósara að það væri hagkvæmara en að reka mörg of lítil sveitarfélög. Guðbrandur Einarsson tók undir það og sagði að hægt væri að ná fram hagræðingu í stjórnsýslu, með sameiningu. Garður og Sandgerði lægu nærri Reykjanesbæ og bæði sveitarfélögin ættu ekki mjög bjarta framtíð í rekstri m.a. vegna smæðar sinnar. Sandgerðisbær er mjög skuldsettur og Garður fær um þriðjung sinna tekna frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þess að sveitarfélagið er með of litlar tekjur.
Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Garðs sagði að þetta væri ekki gleðilegt. „En við verðum að setjast niður og ræða þetta áður en Reykjanesbær ákveður að ganga út úr samstarfinu. Ef það yrði að veruleika myndi það veikja svæðið allt. Við í hinum sveitarfélögunum verðum líka að styðja Reykjanesbæ í baráttunni við ríkið.“
Það var þokkalega létt yfir fundarmönnum þrátt fyrir þungt innlegg Reykjanesbæjar. F.v.: Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, Kristján Ásmundsson skólameistari FS, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garði. VF-myndir/pket.
Bæjarfulltrúar stinga saman nefjum á 39. aðalfundi SSS.
Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á tali við Jón Guðlaugsson, slökkvistjóra Brunavarna Suðurnesja.