Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 16. febrúar 2000 kl. 16:53

Reykjanesbær á meðal 19 verst reknu sveitarfélaga landsins

Skuldir Reykjanesbæjar vaxa -heitt í kolunum á bæjarstjórnarfundi í fyrradag.Minnihlutinn segir fjármálastjórn meirihlutans ekki ganga til lengdar. Meirihlutinn segir skuldir verða greiddar mikið niður á næstu þremur árum. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur borist bréf frá Eftirlitsnefnd um fjárhag sveitarfélaga og þar kemur fram að Reykjanebær er meðal 19 verst reknu sveitarfélaga á landinu. Bréfið byggir á frumathugun nefndarinnar og hún óskar jafnframt eftir frekari upplýsingum. Hún hefur athugað reikningsskil sveitarfélaga frá 1998, ásamt reikningsskilum áranna 1996-1997. Reykjanesbær á að gera nefndinni grein fyrir, innan tveggja mánaða, hver þróunin hefur verið á fjármálum sveitarfélagsins, m.a. við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2000 og þriggja ára áætlunar sveitarfélagsins sem verður tekin til síðari umræðu 7. mars n.k. Það hitnaði heldur betur í kolunum á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag og voru menn ekki á einu máli um hverju skuldastaðan væri að kenna, einsetningu grunnskólanna eða byggingu fjölnota íþróttahúss. Enn hallar á ógæfuhliðina Minnihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lagði fram bókun varðandi þetta mál og þar segir m.a.: „Það er nokkuð ljóst að á árinu 1999 var ekki tekið á þessu máli, þvert á móti var um aukningu skulda að ræða, þó nákvæm niðurstaða á reikningum ársins liggi ekki fyrir fyrr en í lok apríl. Á yfirstandandi ári er einnig ljóst að skuldir munu vaxa verulega, þannig að enn hallar á ógæfuhliðina í fjármálum Reykjanesbæjar. Gildir einu þótt meirihlutinn reyni, eins og krakki sem verið er að skamma, að lofa öllu fögru um framtíðina. Fjármálastjórn meirihlutans gengur heldur ekki til lengdar. Spurningin er því einungis hvort kjósendur eða Félagsmálaráðuneytið verði fyrri til að taka fjármálin úr höndum þessa meirihluta.“ Úgjöld vegna einsetningar Skúli Þ. Skúlason (B) oddviti bæjarstjórnar lagði einnig fram bókun varðandi skuldir bæjarins fyrir hönd meirihlutans. Hann lagði áherslu á að meirihlutanum væri fulljóst hver skuldastaða bæjarfélagsins væri og skýrði hana m.a. með því að atvinnuuppbygging á árunum 1994-98 hefði haft veruleg útgjöld í för með sér. Einnig benti hann á mikil útgjöld bæjarins vegna þeirrar lagaskyldu að einsetja grunnskólana en hann tók sérstaklega fram að meirihlutinn tæki að sjálfsögðu fulla ábyrgð á þeim framkvæmdum. „Samkvæmt fyrirliggjandi 3ja ára áætlun er megin áhersla á niðurgreiðslu skulda. Á árunum 2001-2003 fyrirhugar meirihlutinn að greiða niður skuldir bæjarsjóðs niður um tæplega 900 milljónir króna. Eftirlitsnefnd með fjármál sveitarfélganna verður gerð ítarleg grein fyrir þeim áætlunum sem fyrir liggja“, sagði Skúli. Alger lágkúra Fulltrúar minnihlutans sögðu það vera lágkúru af hálfu meirihlutans að ætla að fela sig á bak við aukin útgjöld vegna framkvæmda í skólamálum. Jóhann Geirdal (J) benti á að tekinn hefði verið milljarður að láni árið 2000 en aðeins helmingur þeirrar upphæðar væri vegna einsetningar grunnskólanna. Á að loka stofnunum bæjarins Böðvar Jónsson (D) benti á að í Vísbendingu, sem er tímarit um efnahagsmál, hafi Reykjanesbær verið í 5. sæti yfir bestu sveitarfélög landsins en þar var tekið tillit til þátta eins og þjónustustaðals o.fl. Reykjanesbær var í 23. sæti í fyrra í sömu könnun. „Við höfum hækkað töluvert og þá má spyrja sig að því hvort menn hafi verið að leika sér með peningana eða framkvæma fyrir þá. Við höfum aldrei reynt að leyna því að skuldir bæjarsjóðs hafa aukist en auðvitað rýrir það greiðslugetu okkar að reka stofnanir bæjarins, vilja menn kannski leggja þær niður“, sagði Böðvar og beindi orðum sínum til fulltrúar J-listans. Reykjaneshöllin ekki lögboðin Kristmundur Ásmundsson (J) sagði að það væri ekki lögboðið að reisa fjölnota íþróttahús og rýra þar með greiðslugetuna og gagnrýndi meirihlutann fyrir að reyna að villa um með því að kenna einsetningu grunnskólanna um skuldastöðuna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024