Réttindalaus og barn laust í framsæti

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af ökumanni við leikskóla fyrir nýliðna helgi.  Í framsæti bílsins var einn fullorðinn farþegi, með lítið barn laust í fanginu.  Hefði bíllinn lent í árekstri eða ökumaður þurft að nauðhemla af einhverjum ástæðum hefðu afleiðingar getað orðið mjög alvarlegar fyrir barnið. Eins og flestir vita eiga börn að sitja í viðeigandi öryggisbúnaði sem hæfir þyngd þeirra.  Fyrir áhugasama er hægt að finna upplýsingar um það á heimasíðu Umferðarstofu: www.us.is.
Ökumaðurinn reyndist ekki vera með ökuskírteini og við athugun kom í ljós að hann hafði misst ökuréttindi fyrir nokkrum árum, en látið hjá líða að taka próf að nýju til að endurheimta þau.  Ökumaðurinn á von á kæru og lögregla sendir almennt skýrslu um slík mál til yfirvalda barnaverndarmála, sem síðan ákveða hvort og þá til hvaða aðgerða sé rétt að grípa.
Í niðurstöðum könnunar á notkun öryggisbúnaðar fyrir börn, sem Umferðarstofa og fleiri hafa gert árum saman víða um land hafa átt sér stað miklar framfarir í notkun öryggisbúnaðar og til dæmis nutu tæplega 90% þeirra barna sem ástandið var kannað hjá á Suðurnesjum í könnun síðastliðið vor fullnægjandi öryggisbúnaðar.



 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				