Réttast væri að sameina öll sveitarfélögin fimm á Reykjanesskaganum
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, veltir sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir sér í löngum pistli á fésbókarsíðu sinni í morgun. Kjartan Már segir í pistlinum að réttast væri að sameina öll sveitarfélögin fimm á Reykjanesskaganum, með hagsmuni allra Suðurnesjamanna í huga.
Kjartan segir: Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að réttast væri, með hagsmuni allra Suðurnesjamanna í huga, að sameina öll sveitarfélögin fimm á Reykjanesskaganum (Reykjanesbæ, Garð, Sandgerði, Voga og Grindavík) í eitt öflugt 25 þús. manna sveitarfélag. Þessi hugmynd hefur hlotið misjafnar undirtektir eins og við er að búast en það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem menn sjá hlutina ólílkum augum hvað þessi mál varðar.
Í drögum að innviðagreiningu sem nú er unnið að á vegum Heklunnar, sameiginlegs atvinnuþróunarfélags allra sveitarfélaganna, er umfjöllun um þessi mál í sögulegu samhengi. Þar má sjá að það hefur ýmislegt gengið á hér í gegnum tíðina.
1.2. Klofningur og sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum
Stjórnskipan sveitastjórna á Íslandi hvílir á gömlum grunni en sögu þeirra má rekja allt til þjóðveldisaldar. Stofnun sveitarfélaga má rekja til þeirra lýðræðislegu hefða sem landsnámsmenn þekktu úr norrænni menningu. Þrátt fyrir þessar sögulegu rætur hefur hlutverk sveitarfélaga breyst í aldanna rás og tekið mið af ríkjandi pólitískum viðhorfum hverju sinni. Um miðja 20. öld voru sveitarfélög á Íslandi 229. Frá síðari hluta níunda áratugar tuttugustu aldar tók þeim að fækka.
Fjöldi sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur tekið nokkrum breytingum í aldanna rás. Þannig voru fjögur sveitarfélög á Suðurnesjum langt fram á 19. öld, þ.e. Grindavíkurhreppur, Hafnahreppur, Rosmhvalaneshreppur og Vatnsleysustrandarhreppur. Í gegnum aldirnar urðu að vísu breytingar á stjórnsýlumörkum sveitarfélaganna, t.d. klufu Njarðvíkurbæirnir sig úr Rosmhvalaneshrepp árið 1596 og sameinuðumst Vatnsleysustrandarhrepp.
Undir lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. verða umtalsverðar breytingar á sveitarfélagaskipan á Suðurnesjum rétt eins og á landinu öllu með breyttum atvinnuháttum og breytingum á hlutverki sveitarfélaga.
Rosmhvalaneshreppi var skipt upp eftir Miðnesi endilöngu árið 1886 Innri helmingurinn hélt nafninu áfram en sá ytri fékk nafnið Miðneshreppur. Aftur er hreppum skipt upp þremur árum síðar þegar Njarðvíkurbæirnir kljúfa sig frá Vatnsleysustrandarhreppi. Kauptúnið Keflavík klauf sig frá Miðneshreppi árið 1908 og sameinaðist Njarðvíkurhreppi í Keflavíkurhrepp. Það sem eftir var af Miðneshreppi varð að Gerðahreppi. Njarðvíkurhreppur klauf sig frá Keflavíkurhreppi árið 1942. Hrepparnir sameinuðust aftur ásamt Hafnarhreppi árið 1994 í Reykjanesbæ.
1.3. Samvinna sveitarfélaga á Suðurnesjum
Sveitarfélög hafa í auknum mæli leitað samstarfs við önnur sveitarfélög á undanförnum árum og áratugum. Ástæður að baki samstarfi geta verið af ýmsum toga. Þannig getur það reynst fámennari sveitarfélögum erfitt að halda úti lögbundinni þjónustu, stærðarhagkvæmni getur skilað fjárhagslegum ávinningi og/eða faglegra starfi.
Samtök sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi voru stofnuð árið 1964 og var gamla Reykjaneskjördæmið
starfsvettvangur þeirra. Þeim samtökum var skipt upp og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum var stofnað árið 1978, en frá árinu 1971 hafði verið starfandi formleg samstarfsnefnd sveitarfélaga á svæðinu. Aðildarsveitarfélög S.S.S. eru fimm talsins í dag Reykjanesbær, Grindavík, Sandgerði, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga í ýmiskonar samstarfi og reka í sameiningu stofnanir og verkefni sem sinna ólíkum hlutverkum og þjónustu við íbúana. Dæmi um samrekin fyrirtæki allra sveitarfélaganna eru Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Atvinnuþróunarfélagið Heklan, Markaðsstofa Reykjaness, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Sveitarfélögin Garður, Sandgerði og Vogar eru með formlegt samstarf í félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum fyrir utan Grindavík eiga aðild að Brunavörnum Suðurnesja og Almannavörnum Suðurnesja og Dvalarheimili Suðurnesja. Sveitarfélögin fimm ásamt einkafyrirtækjum eru stofnendur í Reykjanes Geopark.
Svæðisskipulag Suðurnesja var samþykkt 12.11.2012 og gildir það frá 2008-2024. Auk sveitarfélaganna á Suðurnesjum eru Landhelgisgæslan og Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar aðilar að því samstarfi.