Rétt slapp út áður en bifreiðin varð alelda
Ökumaður bifreiðar rétt slapp út úr bílnum áður en hann varð alelda á Grindavíkurvegi nú áðan. Ökumaðurinn varð var við reyk í bílnum og ók út í kant. Um leið og bifreiðin stöðvaði varð hún alelda.
Slökkvilið frá Grindavík og Brunavörnum Suðurnesja voru kölluð til ásamt sjúkrabíl og lögreglu.
Þegar slökkvilið kom á staðinn var bíllinn alelda og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er hann gjörónýtur eftir brunann.
Ökumanninum varð ekki meint af en var að vonum skelkaður eftir uppákomuna.
VF-myndir: Hilmar Bragi