Rekstur United Silicon stöðvaður
- Fá að kynda upp í ljósbogaofni í samráði við Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun hefur ákveðið að stöðva rekstur kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Stofnunin greindi fyrirtækinu frá þeirri ákvörðun með bréfi í gær, 25. apríl. Í bréfinu segir að ekki verði heimilt að gangsetja ljósbogaofn kísilverksmiðjunnar á ný nema að fengnu leyfi stofnunarinnar.
Framleiðsla hófst í verksmiðjunni í nóvember síðastliðnum og hafa íbúar á svæðinu ítrekað fundið fyrir lyktarmengun og hefur eftirlit Umhverfisstofnunar verið án fordæma.
Eldur kom upp í verkmiðjunni 18. apríl síðastliðinn og hefur starfsemi legið niðri síðan þá. Uppkeyrsla á ofninum verður leyfð til greiningar á orsökum lyktarmengunarinnar og ber United Silicon að tilkynna Umhverfisstofnun um tímasetningu uppkeyslunnar. Stofnunin mun hafa eftirlit með uppkeyrslunni. Í bréfinu er segir að verði óstöðugleika vart í ofni verksmiðjunnar í kjölfar uppkeyrslu eða þegar hann stöðvast á ný skuli tafarlaust tilkynna það til Umhverfisstofununar. Ekki verður heimilt að keyra ofninn upp aftur að nýju án leyfis. Stöðvunin mun gilda þar til orsakir lyktarmengunar verða fundnar og nægilegar úrbætur gerðar.