Rekstur Sandgerðisbæjar styrkist ár frá ári
Rekstrarniðurstaða í ársreikningi Sandgerðisbæjar fyrir árið 2013 er 55 milljónum króna betri en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Rekstur allra málaflokka í bæjarsjóði var innan fjárhagsáætlunar ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sandgerðisbæ.
Kennitölur í rekstri sýna að áætlanir um lækkun rekstrarkostnaðar og lækkun skulda og skuldbindinga hafa gengið eftir. Fjárhagsstaðan hefur styrkst ár frá ári síðustu fjögur ár. Þetta er meðal þess sem fram kom á bæjarstjórnarfundi Sandgerðisbæjar í gær þegar ársreikningur Sandgerðisbæjar fyrir árið 2013 var lagður fram til fyrri umræðu. Seinni umræða um reikninginn fer fram 6. maí.
Framlegð þ.e. rekstrartekjur að frádregnum rekstrargjöldum fyrir A og B hluta er góð eða 20,5%.
Rekstrarniðurstaðan fyrir fjármagnsliði í A og B hluta er jákvæð um 151 mkr. en neikvæð um 102 mkr. að teknu tilliti til fjármagnsliða. Stefnt er að því að rekstrarjöfnuður náist á árinu 2017. Skuldahlutfallið hefur lækkað stórlega undanfarin ár og er nú 170% í A hluta bæjarsjóði og 226% fyrir A og B hluta. Áætlað er að skuldaviðmiðið verði komið niður fyrir 150% árið 2019. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 ber sveitarstjórn að sjá til þess að samanlögð heildarútgjöld á hverju þriggja ára tímabili séu ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum og að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum.
„Sú samstaða sem ríkt hefur meðal kjörinna fulltrúa, starfsfólks og íbúanna í bænum um að snúa vörn í sókn og vinna með jákvæðum og uppbyggjandi hætti úr þeim verkefnum sem við hafa blasað skilar góðum árangri. Staðan var þung í upphafi kjörtímabilsins og ýmsar erfiðar ákvarðanir sem þurfti að taka. Sumt af því hefur þegar gengið til baka eins og viðbótarálag á fasteignaskatt. Ég held að óhætt sé að segja að framtíðin blasi björt við okkur hér í Sandgerði,“ segir Ólafur Þór Ólafsson forseti bæjarstjórnar í tilkynningunni.
Íbúum í Sandgerði fjölgaði frá árinu 2012 og voru 1.602 í lok árs 2013.