Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rekstur Reykjanesbæjar mun betri 2015 en gert var ráð fyrir
Frá bæjarstjórnarfundi 19. apríl sl. VF-mynd/pket.
Föstudagur 22. apríl 2016 kl. 14:13

Rekstur Reykjanesbæjar mun betri 2015 en gert var ráð fyrir

Rekstur Reykjanesbæjar á árinu 2015 var mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tap á A-hluta bæjarsjóðs nam 193 milljónum í stað 415 í áætlun en með b-hluta var tapið 455 milljónir kr. Veltufé frá rekstri bæjarsjóðs nam 1.042 millj. kr. Þessi árangur dugir þó ekki til að vinna á skuldavanda bæjarfélags að mati meirihluta bæjarstjórnar. Bæjarstjóri fór yfir helstu tölur í ársreikningi á síðasta fundi bæjarstjórnar. Minnihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn bókaði vegna ársreiknings bæjarfélagsins og segir niðurstöðuna boða betri fjárhagslega afkomu Reykanesbæjar.

„Tekjur bæjarins jukust verulega á árinu og talsvert umfram meðaltekjuaukningu sveitarfélaga, þótt frá sé dregið tímabundið aukaálag á útsvar. Það er vegna þess að loksins hefur atvinnulífið tekið verulega við sér, bæði með öflugri uppbyggingu í kringum flug og ferðaþjónustu og uppbyggingu mannvirkja fyrir kísilver og rafræn gagnaver og öflugt frumkvöðlastarf í Reykjanesbæ. Fjárfestingar til að standa undir sterku atvinnulífi og samfélagi til framtíðar, sem kostað hafa miklar lántökur, eru loks að skila sér eftir langa bið og mikil áföll. Íbúafjölgun er langt umfram meðalfjölgun í íslenskum sveitarfélögum og horfur eru á enn frekari aukningu íbúa samkvæmt þróun á fasteignamarkaði, sbr. sölu eigna á Ásbrú. Atvinnuleysi fer stöðugt minnkandi og fjárútgjöld sveitarfélagsins m.a. vegna fjárhagsaðstoðar og annarra fylgikvilla atvinnuleysis fara lækkandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæði ársreikningur 2015 og fyrstu mánuðir þessa árs sýna að tekjur bæjarfélagsins eru að aukast mun hraðar en áætlanir hafa gert ráð fyrir. Bæði er um að ræða fjölgun íbúa langt umfram meðaltalsfjölgun í sveitarfélögum og einnig auknar tekjur á hvern íbúa. Skuldahlutfall er því að breytast hratt því það tekur mið af tekjum sveitarfélagsins á móti skuldum. Ef tekjurnar hækka en skuldir standa í stað, lækkar skuldahlutfallið og enn frekar ef unnt er að semja um skuldalækkun, bæði með niðurfellingum hluta skulda eða lækkun vaxta.

Reykjanesbær hefur frá stofnun verið afar skuldsett sveitarfélag og svonefnt skuldahlutfall var um 270% árið 2002. Skuldaviðmið, sem sett var á fyrir fjórum árum, á að geta verið komið niður fyrir sett markmið á tilsettum tíma eftir sex ár, hvort sem horft er til bæjarsjóðs eða samstæðu Reykjanesbæjar.  Skuldaviðmið bæjarsjóðs hefur lækkað síðustu 4 ár úr 292% í 192% og skuldaviðmið samstæðunnar úr 297% í 230%. Með sömu þróun mun Reykjanesbær því ná viðmiðum sínum innan tímamarka.  Þó viðræður sveitarfélagsins við kröfuhafa þess hafi siglt í strand í bili er mikilvægt að leggja ekki árar í bát, heldur leita áfram samninga. Stórar afborganir falla til á þessu ári sem þörf er að endursemja um. Þá hlýtur það að vera eðlileg krafa sveitarfélags að skuldir sem áður voru í höndum hinna föllnu banka en hafa nú verið færðar til ríkisins með viðeigandi niðurskrift, verði a.m.k. ekki innheimtar á hærra verði en Ríkissjóður tók þær á til sín,“ segir m.a. í bókun Sjálfstæðisflokks.

Meirihluti bæjarstjórnar lagði ekki fram bókun en þetta var fyrri umræða um reikninginn. Í máli bæjarfulltrúa á fundinum kom þó fram að tekist hafi að stýra rekstri bæjarfélagsins í rétta átt svo um munaði.