Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rekstur Grindavíkurbæjar á réttri leið - Útsvar lækkað
Föstudagur 9. nóvember 2012 kl. 14:39

Rekstur Grindavíkurbæjar á réttri leið - Útsvar lækkað

Íbúafundur um fjárhagsáætlun og stefnumótun rafrænnar stjórnsýslu var haldinn í Hópsskóla í gær. Fundurinn tókst í alla staði vel þótt fundargestir hefðu mátt vera mun fleiri. Róbert Ragnarsson bæjarstjóri hafði framsögu um fjárhagsáætlun 2013 en síðari umræða í bæjarstjórn fer fram í lok nóvember.

Fram kom í máli Róberts að bæjarstjórn er að ná þeim markmiðum hvað varðar rekstur bæjarins sem sett voru 2010. Hagræðingartímabili er að ljúka en aðhaldi verður beitt næstu árin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jafnframt hefur bæjarstjórn sett sér ný markmið þar sem stefnan er að setja mikla innspýtingu í efnahagslífið 2013 til 2016 samhliða því að ná rekstrarjafnvægi. Þetta krefst þess að bærinn hafi góðan rekstrarafgang á næstu árum til að standa undir fjárfestingum og eiga fyrir auknum rekstrarkostnaði nýrra verkefna.

Áætlað er að á árinu 2013 verði ráðist í fjárfestingar fyrir um 700 milljónir króna. Framkvæmdir eru að helmingi fjármagnaðar með framlagi rekstrar en um 350 milljónir munu verða teknar af HS sjóðnum þannig að ekki verða tekin lán til framkvæmdanna. Sjóðurinn stendur í um 1.400 milljónum í dag og er markmið bæjarstjórnar að sjóðurinn verði aldrei lægri en 1.000 milljónir. Niðurstöður eftir fyrri hluta umræðna í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun gera ráð fyrir 133 milljón króna rekstrarafgangi á næsta ári.

Helstu framkvæmdir áranna 2013-2016 eru:
    •    Bygging nýs sameiginlegs bókasafns og breytingar á húsnæði skólans fyrir flutning tónskóla er í forgangi.
    •    Stækkun íþróttahúss, nýir klefar og uppbygging á sameiginlegri aðstöðu UMFG.
    •    Gatnagerð sem tengist hesthúsabyggð og nýju miðbæjarskipulagi.
    •    Endurnýjun gatnalýsingar og áframhald við stígagerð.
    •    Viðhald og breytingar á höfninni.

Útgjöld málaflokka 2009-2013 - Hlutfall af skatttekjum:



Fjármálaleg markmið Grindavíkurbæjar fyrir árin 2013-2016 eru eftirfarandi: 
Árið 2013. Jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B-hluta. Engar vaxtatekjur verði nýttar til rekstrar, eingöngu til fjárfestinga eða til að auka við handbært fé Grindavíkurbæjar. Sem þýðir þá að afgangur þarf að vera meiri eða jafnmikill og vaxtatekjur.

Árin 2014- 2016. Rekstur A-hluta sveitarfélagsins verði í jafnvægi, þ.e. skatttekjur og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta. Jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B-hluta. Engar vaxtatekjur verði nýttar til rekstrar, eingöngu til fjárfestinga eða til að auka við handbært fé Grindavíkurbæjar. Sem þýðir þá að afgangur þarf að vera meiri eða jafnmikill og vaxtatekjur.

Að lokum voru góðar umræður um fjárhagsáætlunina þar sem m.a. var rætt um gjaldastefnu sveitarfélagsins, skatta, segir á vef Grindavíkurbæjar.