Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rekstur Fasteignar gengur mjög vel
Föstudagur 18. nóvember 2005 kl. 10:47

Rekstur Fasteignar gengur mjög vel

Stjórn félagsins hefur ákveðið að lækka endurgreiðslur vegna eldri eigna. Greiðslur Reykjanesbæjar lækka um 14 milljónir króna á ári.

Rekstur Fasteignar ehf. sem Reykjanesbær er eigandi að ásamt sjö sveitarfélögum og tveimur fjármálastofnunum hefur gengið mjög vel það sem af er. Af þeim sökum hafa eigendur félagsins, ákveðið að lækka leigugreiðslur vegna útleigu eldri eigna úr 0,73 % af kaupverði í 0,693 % af kaupverði. Þrátt fyrir þessar lækkanir nær félagið þeirri arðsemiskröfu sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Árni Sigfússon bæjarstjóri og varaformaður félagsins segir að í þessari ákvörðun birtist m.a. það hagræði sem bærinn hafi af því að vera hvort tveggja eigandi félagsins og leigjandi að eignum þess. “Þessi ákvörðun þýðir að greiðslur Reykjanesbæjar munu lækka um allt að 14 milljónum króna strax á næsta ári. Ákvörðun bæjarstjórnar um að stofna slíkt félag með öðrum verður enn hagkvæmari en upphaflegir útreikningar okkar gerðu ráð fyrir”, segir hann í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ.

Reykjanesbær á 35% í félaginu en eignir Fasteignar nema nú 9,5 milljörðum kr. Því er ljóst að ávöxtun þess fjár hefur verið mjög góð. Stjórn félagsins er einhuga um að láta eigendur félagsins njóta þessarar velgengni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024