Rekstrarafkoma Suðurnesjabæjar mjög viðunandi
Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2021 var samþykktur samhljóða á fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar í síðustu viku. „Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2021 ber með sér að efnahagur sveitarfélagsins er traustur, sem skapar forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa Suðurnesjabæjar á næstu misserum og árum,“ segir í bókun við afgreiðsluna.
Hér að neðan er bókun sem lögð var fram við samþykkt reikningsins:
Heildartekjur A-hluta voru 4.456,5 milljónir króna og í samanteknum reikningi A og B hluta 4.689,1 milljónir. Heildargjöld A hluta voru 4.219,6 milljónir og í samanteknum reikningi A og B hluta 4.351 milljónir. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir var 237 milljónir í A hluta, en 338 milljónir í samanteknum reikningi A og B hluta. Rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð að fjárhæð 83,5 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, er neikvæð að fjárhæð 106,9 milljónir króna.
Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 9.078,9 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 4.978,4 milljónir króna. Lífeyrisskuldbinding hækkar frá árinu 2020 og er 1.158,4 milljónir króna. Langtímaskuldir við fjármálastofnanir eru 2.990,4 milljónir króna og eru næsta árs afborganir langtímalána 263,8 milljón króna. Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 4.100,5 milljónir króna.
Skuldaviðmið A- og B-hluta skv. 14. gr. reglugerðar 502/2012 er 69,7 %, en 45,5% í A-hluta. Samkvæmt fjármálareglu sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%.
Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 493,4 milljónum króna í handbært fé frá rekstri, sem er 10,5% af heildartekjum. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta nam 658,7 milljónum króna á árinu 2021. Á árinu 2021 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 570 milljónir króna. Handbært fé lækkaði um 48,9 milljónir króna frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2021 alls 699,3 milljónir króna.
Íbúafjöldi í Suðurnesjabæ þann 1. desember 2021 var 3.744 og hafði fjölgað um 95 íbúa frá fyrra ári, eða um 2,6%.
Rekstur og fjárhagur Suðurnesjabæjar árið 2021 mótaðist að miklu leyti af heimsfaraldri kórónuveiru, sérstaklega varðandi rekstrarútgjöld. Atvinnuleysi var mun minna í árslok 2021 en árið á undan og aukinn kraftur í atvinnulífinu skilaði sér í meiri tekjum af útsvari en áætlun gerði ráð fyrir. Líkt og árið 2020 hélt Suðurnesjabær uppi fullri þjónustu við íbúa og dró ekki úr fjárfestingum þrátt fyrir áhrif af heimsfaraldrinum. Rekstrarafkoma ársins var þegar upp var staðið nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir, þrátt fyrir mun hærri gjaldfærðum lífeyrisskuldbindingum og fjármagnskostnaði vegna aukinnar verðbólgu.
Bæjarstjórn telur rekstrarafkomu ársins mjög viðunandi miðað við aðstæður og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins þeirra framlag við krefjandi aðstæður vegna Covid-19, bæði hvað varðar rekstur sveitarfélagsins en ekki síður við að takast á við margs konar áskoranir sem upp hafa komið af völdum faraldursins.
Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2021 ber með sér að efnahagur sveitarfélagsins er traustur, sem skapar forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa Suðurnesjabæjar á næstu misserum og árum.