Rekstrarafkoma Isavia jákvæð um 1.620 milljónir króna
Rekstrarafkoma Isavia fyrir fjármagnsliði og skatta á fyrri helmingi ársins 2016 var jákvæð um 1.620 milljónir króna, sem er 30 prósenta aukning frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu 14.408 milljónum króna sem er 2.953 milljóna króna aukning samanborið við sama tímabil á síðasta ári, eða 26 prósent. Heildarafkoma tímabilsins var jákvæð um 1.667 milljónir króna samanborið við 540 milljónir króna á sama tímabili á síðasta ári og hækkaði því um 1.127 milljónir króna. Í tilkynningu frá Isavia segir að af þeirri hækkun megi rekja 670 milljónir króna til gengisáhrifa af erlendum fjáreignum og skuldum.
Isavia samanstendur af rekstri Keflavíkurflugvallar, Fríhafnarinnar, innanlandsflugvallakerfis og flugleiðsöguþjónustu. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir rekstrarafkomu allra þessara þátta vera í takt við áætlanir félagsins. „Uppfærð farþegaspá Keflavíkurflugvallar sem félagið kynnti í febrúar síðastliðnum gefur þó tilefni til að ætla að afkoma félagsins fyrir árið í heild verði nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Isavia hefur lagt í kostnaðarsamar aðgerðir til að bregðast við fádæma vexti á Keflavíkurflugvelli og það er mjög ánægjulegt að sjá á sama tíma hversu vel hefur tekist til við að standa vörð um arðsemi þess fjármagns sem eigandi félagsins, íslenska ríkið, hefur bundið í rekstrinum.“
Isavia kynnti á dögunum vetraráætlun Keflavíkurflugvallar þar sem sætaframboð eykst á milli ára um hátt í 60 prósent. Björn Óli segir afar ánægjulegt að vetrarferðamennskan skuli aukast þetta mikið. „Ég er afar stoltur af þætti Isavia í þeim vexti en félagið hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar með öflugri markaðssetningu gagnvart flugfélögum og hvatakerfi sem veitir flugfélögum, sem hefja flug allt árið, afslátt af notendagjöldum.“