Rekinn úr Idol: kaldhæðni örlaganna
Í viðtali við Arnar Dór Hannesson fyrrverandi keppanda í Idol stjörnuleit sem birtist í Víkurfréttum í dag svarar hann spurningunni hver sé hans mesta martröð á þá leið að það sé að detta út úr Idol keppninni. Eins og greint hefur verið frá var Arnari Dór vikið úr keppninni vegna viðtalsins sem birtist í Víkurfréttum og vísa forsvarsmenn keppninnar til fjölmiðlabanns sem nær til allra keppenda. Arnar Dór sagðist í samtali við Víkurfréttir vera hrikalega leiður og sár yfir þessu. „Mér líður mjög illa yfir þessu, enda var ekki ætlunin að þetta færi svona, að sjálfsögðu ekki. Framtíð mín er björt og ég lít á þetta sem mistök frá minni hálfu og einnig stjórnenda keppninnar. Ég tel þetta samt harðan dóm, sérstaklega þar sem aðrir keppendur í Idol hafa verið að veita á sér athygli með ýmsu móti.“
Viðtalið við Arnar Dór sem birtist í Víkurfréttum.