Reisa blokk í frostinu
Þrjár 10 íbúða blokkir munu rísa í Vogum á Vatnsleysuströnd á næstu mánuðum. Byrjað verður að steypa grunn fyrstu blokkarinnar á mánudag ef veður leyfir, en það er Trésmiðja Snorra Hjaltasonar sem reisir blokkina.
Að sögn Ólafs Garðarssonar verkstjóra hjá Trésmiðju Snorra Hjaltasonar var byrjað að byggja rétt fyrir jólin og hafa framkvæmdir gengið vel. „Já, þetta hefur gengið vel. Við vonumst til að byrja að steypa á mánudag ef veður leyfir,“ sagði Ólafur. Spurður að því hvernig væri að vinna í frostinu sagði hann vera alltof kalt. „Það er reyndar í lagi á meðan það er logn.“
Myndir: Séð yfir svæðið í Vogum þar sem blokkirnar munu rísa. Ólafur Garðarsson verkstjóri hjá Trésmiðjnu Snorra Hjaltasonar sem reisir blokkirnar. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson